Erlent

Ófær um að mæta í dóm­sal vegna pyntinga CIA

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Maðurinn er talinn ósakhæfur að svo stöddu vegna pyntinga CIA.
Maðurinn er talinn ósakhæfur að svo stöddu vegna pyntinga CIA. AP/Brandon

Jemenskur maður sem hefur verið í haldi síðustu ár vegna grunaðra tengsla við hryðjuverkin á Tvíburaturnana í New York er ófær um að mæta fyrir dóm vegna geðtruflana. Bandaríska leyniþjónustan pyntaði manninn mikið í kjölfar handtöku og er talið að hann hafi orðið veikur á geði við pyntingarnar.

Maðurinn Ramzi bin al-Shibh er einn fimmmenninga sem hafa verið í haldi bandarískra yfirvalda í um tuttugu ár vegna meintra tengsla við hryðjuverkin í New York 11. september árið 2001. Hann er talinn hafa tekið þátt í skipulagningu ódæðisins. Næstum því þrjú þúsund manns létust í árásunum.

Maðurinn hefur setið í fangelsinu á Guantanamo Bay í langan tíma og er einn fárra sem þar eru enn eftir. Læknar greindu hann nýlega með áfallastreituröskun og geðtruflanir. Hann er því talinn ósakhæfur í augnablikinu, enda þýðir lítið að draga hann fyrir dóm vegna ástandsins, að sögn Guardian. Réttarhöld yfir fimmmenningunum munu því halda áfram að honum fjarstöddum.

Leyniþjónustan beitti ýmsum brögðum eftir hryðjuverkin árið 2001. Bandaríkjaforseti fyrirskipaði innrás í Írak og Afganistan og fangelsinu, Guantanamo Bay, var komið á fót. Harkalegum yfirheyrsluaðferðum var beitt ítrekað gagnvart hverjum þeim sem talinn var hafa komið að hryðjuverkunum með einum eða öðrum hætti.

Al-Shibh segist hafa verið pyntaður ítrekað. Hann segist hafa verið neyddur til að standa nakinn í allt að þrjá daga í senn. Fangaverðir hafi passað upp á að hann gæti ekki sofnað með því að skvetta köldu vatni á hann í loftkældum klefanum. Svefnleysið og líkamlegar árásir eru taldar hafa valdið honum miklum andlegum skaða, mögulega óafturkræfum.

Fimmmenningarnir voru allir pyntaðir ítrekað af CIA en leyniþjónustan segist hafa hætt að beita pyntingaraðferðunum árið 2009. Rannsókn öldungadeildar Bandaríkjaþings leiddi síðar í ljós að pyntingarnar hefðu litlum upplýsingum skilað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.