Fótbolti

Andri Lucas lánaður til Lyngby

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen spilar í dönsku deildinni út þetta tímabil.
Andri Lucas Guðjohnsen spilar í dönsku deildinni út þetta tímabil. @lyngbyboldklub

Íslenski landsliðsframherjinn Andri Lucas Guðjohnsen er kominn í dönsku deildina og bætist því í hóp Íslendinganna hjá Lyngby.

Andri Lucas kemur á láni til Lyngby frá sænska félaginu IFK Norrköping. Lánssamningurinn nær út þetta tímabil. Lyngby staðfestir þetta á heimasíðu sinni.

Andri spilar því fyrir Frey Alexandersson á næstunni og er enn einn Íslendingurinn sem kemur til danska félagsins. Alfreð Finnbogason og Sævar Atli Magnússon spila áfram með liðinu sem og Kolbeinn Finnsson sem kom í janúar.

Andri er bara 21 árs gamall en hefur þegar spilað fimmtán landsleiki fyrir A-landslið Íslands og skorað í þeim fjögur mörk. Hann lék með yngri liðum Barcelona og Real Madrid áður en hann fór til Norrköping fyrir ári síðan.

Andri spilaði sextán leiki og 369 mínútur í sænsku deildinni í ár án þess að ná að skora.

Freyr fær það verkefni að koma stráknum aftur í gang eftir erfitt tímabil með sænska liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×