Innlent

Segja fátækum hafa fækkað

Samúel Karl Ólason skrifar
Hlutfall tekjulágra var13,5 prósent á Íslandi árið 2020. Árið 2000 var það hins vegar 15,3 prósent.
Hlutfall tekjulágra var13,5 prósent á Íslandi árið 2020. Árið 2000 var það hins vegar 15,3 prósent. Vísir/Vilhelm

Fátækum hefur fækkað hér á landi síðustu tvo áratugi og er staðan á íslandi meðal því besta sem þekkist í samanburðarlöndum. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem einnig segir að staðan góða breyti því ekki að fátækt sé til staðar.

Tilefni þessarar yfirlýsingar á vef Stjórnarráðsins er útgáfa nýrrar skýrslu, sem ber heitið „Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður“.

Þar kemur fram að hlutfall tekjulágra hafi verið 13,5 prósent á Íslandi árið 2020. Árið 2000 hafi það hins vegar verið 15,3 prósent. Þá segir að líklegt sé að hlutfall tekjulágra meðal háskólanema hafi verið ofmetið því ekki hafi verið hægt að fá gögn um námslán.

Þeir sem standa verst varðandi fátækt eru einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur. Höfundar skýrslunnar segja að vinna þurfi að sérhæfðari greiningu á hverjum hópi fyrir sig til að lyfta þeim upp fyrir lágtekjumörk.

Einnig segja þeir að fátækt barna eigi að vera sérstakt viðfangsefni. Áætlað er að um níu þúsund börn hafi talist undir lágtekjumörkum árið 2020. Áætlaður heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar er á milli 31 til 92 milljarðar króna á ári, samkvæmt höfundum skýrslunnar. Það samsvarar einu til 2,8 prósentum af vergri landsframleiðslu.

Einnig segir í áðurnefndri yfirlýsingu á vef ríkisstjórnin hafi samþykkt að veita átta milljónum króna til frekari rannsókna á fátækt á Íslandi. Hópur fræðimanna muni vinna með sérfræðingum Stjórnarráðsins að því að vinna úr gögnum og skila samantekt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×