Annie hóf daginn í 2. sæti í heildarstigakeppni mótsins og í grein dagsins kom hún aðeins á eftir efstu konu á styrkleikalista CrossFit, hinni ungversku Laura Horvath.
Árangur Anniear í sjöttu greininni færði henni alls 97 stig í heildarstigakeppninni og er hún áfram í 2. sæti mótsins, sextán stigum á eftir Gabriela Migala sem leiðir mótið fyrir lokagrein þess síðar í dag.
Þuríður Erla Helgadóttir stóð sig frábærlega í sjöttu greininni og endaði í sjötta sæti. Hún vinnur sig upp um þrjú sæti milli greina. Þá gerði Sólveig Sigurðardóttir einnig vel í sjöttu greininni og endaði í 17. Sæti. Hún er sem stendur í 21. sæti mótsins.
Sárt að horfa á Söru
Á meðan að Annie og Þuríður áttu afar góðu gengi að fagna í sjöttu grein undanúrslitamótsins átti Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir erfitt uppdráttar.
Hún féll á tíma í sjöttu greininni eftir að hafa átt í erfiðleikum með einn hluta hennar, klifur upp og niður kaðal þar sem ekki mátti nota fæturna sér til stuðnings.
Heyra mátti á lýsendum í beinni útsendingu á mótinu hversu mikið þeir fundu til með Söru á þessum tímapunkti.
Íslenska valkyrjan sýndi þó styrk og þrautseigju með því að gefast ekki upp og halda áfram, aftur og aftur, að reyna klára greinina.
Sara er sem stendur í 18. sæti undanúrslitamótsins en ellefu efstu keppendurnir í kvennaflokki tryggja sér sæti á heimsleikunum í ágúst.