Innlent

Við­halds­með­ferðir við fíkn eigi ekki að vera í höndum ein­staka lækna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Alma Möller landlæknir kallar eftir heildstæðri stefnu stjórnvalda um fíknivanda í landinu.
Alma Möller landlæknir kallar eftir heildstæðri stefnu stjórnvalda um fíknivanda í landinu. Vísir/Vilhelm

Landlæknir segir að mál geðlæknisins, sem sviptur var ávísanaleyfi á dögunum, sé fordæmalaust vegna magns þeirra ópíóíðalyfja sem skrifað var upp á. Svokallaðar viðhaldsmeðferðir eigi ekki heima hjá einstökum læknum en kallar eftir heildstæðri stefnu stjórnvalda í vímuefnamálum.

Á dögunum staðfesti heilbrigðisráðuneytið ákvörðun Embættis landlæknis um að svipta geðlækni ávísanaleyfi fyrir að hafa skrifað upp á 2,1 kíló af oxykódóni og 1,5 kílói af morfíni til sjúklings á fjögurra ára tímabili. 

Sjá nánar: Geðlæknir ávísaði sjúklingi oxýkódóni og morfíni í kílóa vís

Læknirinn kærði ákvörðunina til heilbrigðisráðuneytisins og bar fyrir sig að hafa verið með sjúkling í svokallaðri skaðaminnkandi meðferð. Í eitt skiptið hafi hann skrifað upp á mikið magn vegna útlandaferðar.

„Ég get fullyrt að ég hef ekki séð sambærilegt magn en eins og fram kemur þá var það að mestu leyti í einni ávísun sem var stöðvuð og þá var auðvitað tók steininn úr og var gripið í taumana. Auðvitað er stöðugt verið að fylgjast með lyfjaávísunum lækna og langoftast eiga málin sér eðlilegar skýringar en á hverjum tíma eru alltaf nokkrir læknar til gaumgæfilegrar skoðunar. Úrræði okkar eru að funda og veita tiltal, biðja fólk um að breyta, nú síðan er hægt að áminna og alvarlegustu viðurlögin eru svipting ávísunarréttar eða jafnvel svipting starfsleyfis,“ segir Alma D. Möller, landlæknir.

Landlæknir segir að umræddur læknir hafi verið til rannsóknar hjá embættinu um nokkurt skeið. Lyfjafræðingur hefur til að mynda sagst ítrekað hafa varað við grunsamlegum uppáskriftum læknisins, fyrst árið 2019. Alma segir embættið hafa veitt manninum tiltal en það hafi ekki dugað til.

Viðhaldsmeðferð við fíknisjúkdómi er skaðaminnkandi úrræði þar sem smáum skömmtum af lyfjum er ávísað fast á einstaklinga sem glíma við þungan fíknivanda. Þeir læknar sem eru með sjúklinga í slíkri meðferð telja að þær séu þeim heillavænlegastar með tilliti til öryggis þeirra og lifnaðarhátta. Þeir þurfi þá hvorki að verða sér úti um efnin á svörtum markaði né fremja afbrot til að verða sér úti um þau.

Sérfræðingateymi eigi að sinna viðhaldsmeðferðum

Alma segist geta sett sig í þau spor að vilja sýna sjúklingum með fíknivanda mannúð og samkennd en það breyti því ekki að ávísanirnar séu ekki í samræmi við bestu þekkingu.

„Því það er þannig að notkun morfíns, jafnvel í háum skömmtum, við ópíóðafíkn er ekki byggð á bestu þekkingu og hvað þá þegar verið er að ávísa töflum til að mylja og gefa í æð. Það er ekki í samræmi við viðurkenndar ábendingar um morfínnotkun.“

Viðhaldsmeðferðir þurfi að vera í höndum teymis sérfræðinga á Vogi eða á Landspítala. Réttu lyfin séu buprenorphine og methadone.

„Þetta eru lyfin sem á að nota. Aukinheldur þarf að sinna því sem við köllum viðhaldsmeðferðir af teymi með sérþekkingu og það þarf að vera mjög vel skilgreint utanumhald þannig að þessi meðferð á ekki heima hjá einstökum læknum.“

Nauðsynlegt að ráðast í heildstæða stefnumótun

Alma kallar eftir heildstæðri stefnumótun stjórnvalda um vímuefnavandann. Það dugi ekki til að gera einstakar breytingar innan málaflokksins heldur þurfi að skoða hann heildstætt. Það hafi portúgölskum stjórnvöldum tekist að gera með góðum árangri.

„Og þá að huga að forvörnum, meðferð og samfélagslegu afleiðingum. Það þarf að fara í þessa stefnumótun og byggja undir það sem þegar er en við höfum líka bent á að það kynni að vera gagnlegt að setja reglugerð um þessa viðhaldsmeðferð.“


Tengdar fréttir

Geðlæknir ávísaði sjúklingi oxýkódóni og morfíni í kílóa vís

Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Embættis landlæknis um að svipta geðlækni á Íslandi réttindum til að ávísa ópíóðalyfjum. Læknirinn er talinn hafa ávísað 2,1 kílói af oxýkódóni og 1,5 kílói af morfíni til sjúklings á fjögurra ára tímabili.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×