Sport

Sigraðist aftur á krabbameini: „Hélt að ég myndi ekki lifa fram yfir jól“

Sindri Sverrisson skrifar
Martina Navratilova fyrir miðju með þeim Elise Mertens og Veronika Kudermetova eftir sigur þeirra í WTA-úrslitunum í fyrra, með verðlaunagripinn sem nefndur er eftir Navratilova.
Martina Navratilova fyrir miðju með þeim Elise Mertens og Veronika Kudermetova eftir sigur þeirra í WTA-úrslitunum í fyrra, með verðlaunagripinn sem nefndur er eftir Navratilova. Getty/Tom Pennington

Tennisgoðsögnin Martina Navratilova hefur sigrast á krabbameini í hálsi og brjósti en hún greinir frá þessu í viðtali við Piers Morgan í TalkTV sem birt er í dag.

Navratilova vann samtals 59 titla á risamótum á sínum ferli, þar af 32 titla í einliðaleik. Þessi 66 ára Tékki og Bandaríkjakona hafði greint frá veikindum sínum fyrir fjórum mánuðum.

„Eftir því sem best er vitað þá er ég laus við krabbamein,“ sagði hin 66 ára gamla Navratilova í viðtalinu við Morgan.

„Ég þarf enn að klára hægra brjóstið almennilega með geislameðferð en bara í tvær vikur, og það er fyrst og fremst fyrirbyggjandi,“ sagði Navratilova sem áður hafði greinst með brjóstakrabbamein árið 2010 en jafnað sig af því.

Í viðtalinu við Morgan sagði hún frá áfallinu sem fylgdi því að greinast aftur með krabbamein í nóvember síðastliðnum:

„Ég var í algjöru áfalli í þrjá daga og hélt að ég myndi ekki lifa fram yfir jól. Ég fór að hugsa um listann yfir þá hluti sem ég vildi gera áður en ég félli frá. Og þetta gæti hljómað mjög grunnhyggið en ég hugsaði með mér: „Hvaða geggjaða bíl langar mig virkilega til að keyra ef að ég á bara eftir að lifa í ár?““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×