Innlent

Hafa kallað fólk í skimun vegna berkla­smita

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu. Stöð 2

Nokkrir einstaklingar hafa greinst með berkla á þessu ári og hefur heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu boðað hóp fólks í skimun vegna þess. Umdæmislæknir sóttvarna segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af smitunum enda séu berklar ekki bráðsmitandi sjúkdómur.

Fólkið sem greindist smitað er búsett á Íslandi. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa tölu yfir fjölda þeirra smituðu en að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar. Hún hefur heldur ekki upplýsingar um hvort að þeir smituðu tengist. Ekki er talið að smitin tengist ferðum erlendis.

Starfsmenn heilsugæslunnar vinni nú að því að kortleggja umgengnishóp þeirra smituðu. Unnið sé eftir verklagsreglum um berklapróf. Skimað er fyrir berklum með húðprófi og lugnamynd eftir atvikum.

„Það sem við þurfum að muna er að berklar eru alls ekki bráðsmitandi. Flestir bara veikjast ekki. Þess vegna erum við alveg róleg,“ segir Sigríður Dóra.

Árlega greinast um tíu einstaklingar með berkla á Íslandi samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni Heilsuveru. Sigríður Dóra segir að berklar greinist yfirleitt frekar seint því læknar muni ekki eftir sjúkdómnum. Til sé góð sýklalyfjameðferð við þeim.

Helstu einkenni berkla eru hósti, þyngdartap, slappleiki, hiti, nætursviti, kuldahrollur og lystarleysi. Oftar sýkir berklabakterían lungu og veldur þá langvarandi hósta, takverk og jafnvel blóðhósta. Þeir geta einnig lagst á önnur líffæri.

Berklar voru skæður sjúkdómur á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Tugir til hundruð manna létust á hverju ári af völdum þeirra á fyrstu áratugum aldarinnar, flestir á þriðja áratugnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×