Erlent

Um­svifa- og á­hrifa­mikill undir­róðurs­hópur af­hjúpaður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tal Hanan segist blásaklaus.
Tal Hanan segist blásaklaus. Skjáskot

Ísraelskur félagsskapur sem kallar sig „Team Jorge“ segist hafa tekið þátt í að hafa áhrif á niðurstöður yfir 30 forsetakosninga víðsvegar í heiminum. Teymið ræður yfir „her“ gervimenna og dreifir falsfréttum og fremur skemmdarverk í þágu viðskiptavina sinna.

Guardian er meðal þeirra sem hafa fjallað um málið en blaðamenn um það bil 30 miðla komu að rannsókn málsins. Þegar hefðbundnar aðferðir blaðamennsku dugðu ekki til, settu þrír blaðamenn sig í samband við höfuðpaurinn, Tal Hanan, og þóttust þarfnast þjónustu hans.

Hanan, sem kallar sig Jorge í tengslum við störf hópsins, er 50 ára fyrrverandi sérsveitarmaður. Hann sagðist í samtölum við blaðamennina hafa unnið fyrir frambjóðendur, einkafyrirtæki og jafnvel leyniþjónustur og aðstoðað umrædda aðila við að hafa áhrif á almenningsálitið.

Ein af þeim þjónustuleiðum sem Hanan hefur á boðstólnum kallast Advanced Impact Media Solutions, eða Aimes, en um er að ráða forrit sem stjórnar þúsundum falsaðra aðganga á samfélagsmiðlum, Gmail og YouTube. 

Margir aðganganna hafa verið starfræktir í mörg ár og eru jafnvel tengdir við kreditkort og aðganga að Amazon og AIRbnb.

Í samtölum við blaðamennina lýsti Hanan því hvernig hann gæti safnað upplýsingum um andstæðinga viðskiptavinarins með því að brjótast inn í tölvupóst og samfélagsmiðlaaðganga. 

Þá sagði hann hópinn hafa komið falsfréttum í dreifingu hjá virtum miðlum, sem væri síðan dreift af samfélagsmiðlahernum. Einn þekktur franskur sjónvarpsmaður hefur þegar verið vikið frá störfum í tengslum við málið.

Þegar samtölin áttu sér stað, í júlí og í desember í fyrra, sagðist Hanan vera virkur í einum kosningum í Afríku. 

Blaðamennirnir gátu ekki staðfest allar staðhæfingar Hanan en gátu fært sönnur á að innbrot sem hann framdi fyrir framan þá inn á Telegram-aðgang náins ráðgjafa William Rudo, þáverandi forsetaframbjóðanda og núverandi forseta, Kenía.

Sagði hann „innbrot“ af þessu tagi gagnast vel til að skapa ringulreið; hann gæti til dæmis sent meiðandi skilaboð til félaga fórnarlambsins og eytt þeim svo þegar þau hefðu verið lesin.

Hanan neitar sök.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×