Fótbolti

Burnl­ey laumaði sér í 16-liða úr­slit | Ösku­bu­sku­ævin­týri Wrex­ham á enda

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Burnley er á leið í 16-liða úrslit FA-bikarsins.
Burnley er á leið í 16-liða úrslit FA-bikarsins. Clive Brunskill/Getty Images

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley eru á leið í 16-liða úrslit FA-bikarsins í fótbolta eftir dramatískan 2-1 sigur gegn C-deildarliði Ipswich Town í kvöld. Þá var dramatíkin ekki minni þegar Sheffield United sló Hollywood-lið Wrexham úr leik á sama tíma.

Jóhann Berg hóf leik á bekknum, en Nathan Tella kom Burnley yfir gegn Ipswich strax á fyrstu mínútu leiksins áður en George Hirst jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar. Þetta reyndust einu tvö mörk fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Jóhann Berg kom svo inn af varamannabekknum þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, en sigurmarkið leit ekki dagsins ljós fyrr en á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Nathan Tella skoraði annað mark sitt og tryggði Burnley sæti í 16-liða úrslitum þar sem liðið mætir C-deildarliði Fleetwood Town.

Þá þurfti Hollywood-lið Wrexham, sem leikur í ensku E-deildinni að sætta sig við 3-1 tap gegn Sheffield United sem leikur í B-deildinni.

Anel Ahmedhodzic kom heimamönnum í Sheffield yfir með marki á 50. mínútu leiksins áður en Paul Mullin jafnaði metin fyrir Wrexham með marki af vítapunktinum níu mínútum síðar.

Mullin fékk svo tækifæri til að koma gestunum yfir þegar liðið krækti sér í aðra vítaspyrnu, en í þetta skipti lét hann verja frá sér.

Það var svo reynsluboltinn Billy Sharp sem kom Sheffield United yfir á nýjan leik með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma eftir vandræðagang í vörn Wrexham áður en Norðmaðurinn Sander Berge gulltryggði 3-1 sigur Sheffield sem mætir Tottenham í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×