Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tilkynnti í vikunni að ekki væru til fjármunir fyrir rekstri flugvélarinnar og því ætti að hætta rekstri hennar. Áformin hafa verið harðlega gagnrýnd úr ýmsum áttum og segir forsætisráðherra að skoða þurfi málið aftur.
„Þetta mál var kynnt í ríkisstjórn í janúar. Ég var ekki á þeim fundi en ég tel fulla ástæðu til þess í ljósi þess viðbragðs sem við höfum heyrt, bæði frá Landhelgisgæslunni, almannavörnum og ýmsum aðilum úti í samfélaginu, sem þurfa á þjónustu þessarar flugvélar að halda, alveg einsýnt að það þarf að fara yfir þessa ákvörðun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fréttastofu.
Vélin fari ekki nema annað taki við
Hún bendir á að ekki sé hægt að selja flugvélina nema meirihluti þingmanna samþykki söluna.
„Við munum ræða þetta á vettvangi Þjóðaröryggisráðs út frá þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram gagnvart okkar skuldbindingum í alþjóðlegu samstarfi og líka gagnvart almannavarnarsjónarmiðum. Augljóslega þarf bara að fara mjög vel yfir þetta mál.“
Hún sjái ekki fyrir sér að salan verði að veruleika nema ákvörðun liggi fyrir um framhaldið.
„Ég sé ekki fyrir mér að það sé hægt að taka þessa ákvörðun nema fyrir liggi hvað eigi að taka við. Við vitum það að þegar þessi vél kom á sínum tíma var það langur aðdragandi í að fá hana til landsins. Augljóslega má ekki verða neitt rof í þeim efnum,“ segir Katrín.
„Ég held að þessi ákvörðun þurfi einfaldlega miklu betri skoðunar við. Það er ekki hægt að ráðast í að selja þessa vél án þess að það sé búið að fara yfir öll þessi sjónarmið. Það verður gert.“
Hún segir koma til greina að þessi tiltekna vél verði seld ef önnur komi í staðin.
„Við vitum það sem þekkjum þessa sögu að það tók langan tíma síðast. Þetta snýst um það að tryggja að ekkert rof verði á þessari viðbúnaðargetu Landhelgisgæslunnar, það er ekki í boði.“