Innlent

„Al­var­legur galli á hús­næðis­stuðningnum“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Stefán bendir á að greidd húsaleiga er að meðaltali 220.000 krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 152.000 kr. á landsbyggðinni. Kaupverð íbúða er sömuleiðis miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu.
Stefán bendir á að greidd húsaleiga er að meðaltali 220.000 krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 152.000 kr. á landsbyggðinni. Kaupverð íbúða er sömuleiðis miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu. Samsett

Eflingarfólk á heimtingu á meiri hækkunum en meðlimir Starfsgreinasambandsins þar sem húsnæðiskostnaður er mun meiri á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Stefáns Ólafssonar prófessors við HÍ og sérfræðings hjá Eflingu sem birtist á Vísi í dag.

Stefán bendir á að greidd húsaleiga er að meðaltali 220.000 krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 152.000 kr. á landsbyggðinni. Kaupverð íbúða er sömuleiðis miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu.

Hann tekur sem dæmi fullvinnandi, einhleypan einstakling í verkalýðsstétt, sem býr í leiguhúsnæði (50 fm íbúð) og er á meðallaunum samkvæmt hinum nýja samningi SGS. Mánaðarlaun eru 426 þúsund og að frádregnum sköttum og gjöldum og með viðbættum húsaleigubótum hefur þessi einstaklingur 380 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur til að greiða framfærslukostnað.

Framfærslukostnaður án húsnæðiskostnaðar einhleypra á höfuðborgarsvæðinu er um 256 þúsund kr. um þessar mundir og meðal húsaleiga fyrir litla íbúð (50 fm) er 165.000 kr. Aðstæður eru hins vegar öðruvísi á landsbyggðinni þar sem húsnæðiskostnaður er mun minni, eða sem nemur um 55 þúsund krónum fyrir litla leiguíbúð (50 fm að stærð).

Stefán bendir á að þetta skilar þeim sem er á meðaltaxta Starfsgreinasambandsins um 14 þúsund krónum í afgang í hverjum mánuði á meðan Eflingarfólk þarf að glíma við um 40 þúsund króna halla. SGS samningurinn sé þannig meira viðunandi fyrir landsbyggðarfólk en fyrir Eflingarfólk, þó ekki séu þetta glæsileg kjör.

„Allir hljóta að skilja að laun þurfa að duga fyrir framfærslu og ef húsnæðiskostnaður er allur annar þurfa kjarasamningar að reyna að brúa það, ef ekki tekst að gera það með húsnæðisbótum. Þær eru hinar sömu hjá láglaunafólki á meðaltaxta SGS en þegar laun fara upp fyrir það skila þær sér betur til landsbyggðarfólks en á höfuðborgarsvæðið. Það er alvarlegur galli á húsnæðisstuðningnum.“

Hér má finna grein Stefáns í heild sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×