Erlent

Hlýjasta sumar í Evrópu frá því mælingar hófust

Fanndís Birna Logadóttir og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa
Síðasta sumar var það hlýjasta í Evrópu frá því að mælingar hófust og annað hlýjasta árið í álfunni. Hitinn náði þó ekki yfir meðaltal á Íslandi.
Síðasta sumar var það hlýjasta í Evrópu frá því að mælingar hófust og annað hlýjasta árið í álfunni. Hitinn náði þó ekki yfir meðaltal á Íslandi. EPA

Síðasta sumar var það hlýjasta í Evrópu frá því að mælingar hófust og annað hlýjasta árið í álfunni. Í öllum löndum Evrópu, nema á Íslandi, var hitinn yfir meðaltali samanborið við árin 1991 til 2020.

Á heimsvísu var árið 2022 fimmta hlýjasta árið frá því að mælingar hófust. Það hlýnar áfram hratt á Norðurhveli jarðar en við Kyrrahafið, þar á meðal í Ástralíu og Suður-Ameríku, var kaldara í fyrra miðað við meðaltal síðustu ára.

Þetta kemur fram í gögnum Copernicus, loftslagsstofnunar Evrópusambandsins. Samantha Burgess, einn af yfirmönnum stofnunarinnar, segir í tilkynningu að gögnin sýni að heimurinn sé þegar byrjaður að finna fyrir afleiðingum hlýnandi jarðar. 2022 væri áttunda árið í röð þar sem hitinn væri eina gráðu yfir meðaltali frá því fyrir iðnbyltingu. Meðalhiti var 1,2 gráðum hærri frá því fyrir iðnbyltingu en markmið Parísarsáttmálans er að halda hlýnun jarðar undir einni og hálfri gráðu.

Meðal þeirra afleiðinga sem sýndu sig vegna hitabreytinganna á nýliðnu ári var lítill ís á Antarktíku og hæsti hiti sem mælst hefur á veðurmælingarstöðinni í Vostok. Hitastigið fór upp í -17,7 °C.

Þá kvörtuðu Evrópubúar yfir lítilli rigningu, þurrkum, og heiðskírum himin sem hafði áhrif á bruna og eldhættu og flutning sem reiddi sig á vatnsmagn í ám. Þá hafði hækkun hitastigsins einnig nokkur áhrif á landbúnað í álfunni.

Í þessari nýju samantekt kemur einnig fram að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu jókst árið 2022 líkt og árin áður. Bráðabirgðaniðurstöður sýna að magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu jókst um 2,1 milljónustu hluta og metan um 12 milljörðustu hluta. 

Að meðaltali hafi magn þessara gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu á heimsvísu verið 417 milljónustu hlutar af kolvíoxíð og 1894 milljörðustu hlutar af metani. Miðað við þessar niðurstöður hefur magn þessara lofttegunda ekki verið meira í andrúmsloftinu í mörg hundruð þúsund ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×