Fótbolti

Segir að yfirvöld í Sádi-Arabíu styðji kaup á Manchester United og Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Prins Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, íþróttamálaráðherra Sádi-Arabíu, fagnar með landsliðinu eftir sigur liðsins gegn Argentínu. Hann segir að yfirvöld þar í landi séu tilbúin að styðja við kaup á Liverpool og Manchester United.
Prins Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, íþróttamálaráðherra Sádi-Arabíu, fagnar með landsliðinu eftir sigur liðsins gegn Argentínu. Hann segir að yfirvöld þar í landi séu tilbúin að styðja við kaup á Liverpool og Manchester United. Shaun Botterill - FIFA/FIFA via Getty Images

Prins Abdulaziz bin Turki Al Faisal, íþróttamálaráðherra Sádi-Arabíu, segir að yfirvöld þar í landi séu klárlega tilbúin að styðja við þarlenda einkaaðila sem gætu ætlað sér að bjóða í ensku úrvalsdeildarfélögin Liverpool og Manchester United.

Eigendur beggja liða skoða nú hvort möguleiki sé á að selja félögin. Ekki er langt síðan annað úrvalsdeildarfélag var keypt með hjálp yfirvalda í Sádi-Arabíu, en PIF, sem er fjárfestingasjóður þar í landi, keypti Newcastle í október á síðasta ári.

Íþróttamálaráðherrann Al Faisal segir að mikill áhugi sé á því að eignast lið á borð við Liverpool og Manchester United, enda séu margir aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar í Sádi-Arabíu.

„Ef við horfum út frá þetta frá einkageiranum, því ég get talað fyrir þeirra hönd, er mikill áhugi og hér er mikil ástríða fyrir fótbolta,“ sagði Al Faisal í samtali við BBC.

„Þetta er sú deild sem er með mest áhorf hér í Sádi-Arabíu og á svæðunum hér í kring og hér eru margir aðdáendur ensku úrvalsdeildarinnar.“

„Ef fram kemur fjárfestir sem er tilbúinn að leggja fram boð, af hverju ekki?“ spurði íþróttamálaráðherrann.

Eins og áður segir er rétt rúmt ár síðan Newcastle var keypt af PIF og varð þar með ríkasta félag heims. Liðið situr nú í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki tapað leik í öllum keppnum síðan 31. ágúst.

„Þeir hafa staðið sig ótrúlega vel. Þeir eiga enn langt í land, en þeir hafa fengið rétta fólkið með sér í lið.“

„Ég er viss um að þeir stefna á að vinna deildina og Meistaradeildina og þar fram eftir götunum. Þeir stefna á það besta og koma alltaf með það besta að borðinu. Þannig ég held að framtíðin sé björt hjá Newcastle.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.