Tónlist

Biðja aðdáendur afsökunar eftir misheppnaða miðasölu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Taylor Swift er alls ekki sátt með hvernig tókst til í miðasölu fyrir tónleika hennar í tilefni af nýrri plötu hennar, Anti-hero, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda.
Taylor Swift er alls ekki sátt með hvernig tókst til í miðasölu fyrir tónleika hennar í tilefni af nýrri plötu hennar, Anti-hero, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda. Getty/Terry Wyatt

Miðasölurisinn Ticketmaster hefur beðið aðdáaendur stórsöngkonunnar Taylor Swift afsökunar vegna hruns sem varð á síðu fyrirtækisins þegar sala hófst á miðum á tónleika söngkonunnar. Ticketmaster hefur kennt metaðsókn og tölvuþrjótum um algjörlega misheppnaða sölu.

Dæmi eru um að miðar á tónleika Taylor í tilefni af nýrri plötu hennar, Anti-Hero, kosti á bilinu 2,5-9 milljónir króna í endursölu. Töluvert færri aðdáendum tókst að fá miða en vildu í forsölu þegar 2 milljónir miða á tónleikana seldust. Ticketmaster hefur greint frá því að um 15 prósent notenda hafi lent í vandræðum og misst miða sem þeir hafi þegar tryggt sér. Dæmi eru um að tölvuþrjótar sanki að sér miðum til að selja aftur á uppsprengdu verði. Hefur þetta vakið mikla reiði meðal aðdáenda en miðasala Taylor er ekki sú fyrsta sem fer úr böndunum hjá Ticketmaster. 

Margir biðu í nokkra klukkutíma í „röð“ á netinu eftir miðum á tónleika Taylor en á endanum hrundi síðan. Ticketmaster er nánast einráður á markaði í netmiðasölu eftir samruna við LiveNation og lýsti því yfir á Twitter að aldrei fyrr hafi eftirspurn eftir miðum verið svo mikil og nú þegar selja átti miða á tónleika Taylor. 

Í kjölfar klúðursins hætti miðasölufyrirtækið við almenna miðasölu og gaf frá sér yfirlýsingu þar sem beðist er afsökunar á því hvernig miðasalan fór fram. 

„Í fyrsta lagi viljum við biðja Taylor og alla hennar aðdáendur afsökunar - sérstaklega þá sem áttu hræðilega upplifun af því að reyna að kaupa miða,“ segir í yfirlýsingu og í framhaldi útskýrt að kerfi hafi átt að sía út tölvuþrjóta þannig að raunverulegir aðdáendur söngkonunnar kæmust að. Það virðist ekki hafa gengið sem skyldi. 

Taylor Swift segir í yfirlýsingu á Instagram að atvikið hafa pirrað hana mjög. Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata tjáði sig um málið í kjölfar misheppnaðrar miðasölunnar og kallar Ticketmaster einokunarfyrirtæki. 

„Samruninn með LiveNation hefði aldrei átt að vera samþykktur, og það verður að grípa í taumana,“ segir Ocasio-Cortez






Fleiri fréttir

Sjá meira


×