Erlent

Hét nýjum degi fyrir Amason­frum­skóginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Lula da Silva, verðandi forseti Brasilíu, lofaði stefnubreytingu í málefnum Amasonfrumskógarins í ræðu á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi.
Lula da Silva, verðandi forseti Brasilíu, lofaði stefnubreytingu í málefnum Amasonfrumskógarins í ræðu á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi. AP/Nariman el-Mofty

Luiz Inacio Lula da Silva, nýkjörinn forseti Brasilíu, hét því að nýr dagur væri runninn upp fyrir Amasonfrumskóginn og að hann ætlaði að taka á ólöglegu skógarhöggi þar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í dag.

Eyðing Amasonfrumskógarins er talin hafa aukist verulega í valdatíð Jais Bolsonaro, fráfarandi forseta Brasilíu. Bolsonaro ýtti meðal annars undir nýtingu skógarins og skipaði fyrrverandi starfsmenn landbúnaðariðnaðarins til þess að sjá um málefni hans.

Bolsonaro tapaði fyrir Lula í seinni umferð forsetakosninga í lok síðasta mánaðar. Sá síðarnefndi tekur við embættinu 1. janúar.

Lula tók til máls á COP27-loftslagsráðstefnunni í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í dag og lofaði þar að snúa við þeirri þróun sem átti sér stað í tíð forvera síns.

„Það verður ekkert loftslagsöryggi ef Amasonfrumskógurinn er ekki verndaður,“ sagði Lula sem hét því að taka fast á öllum glæpum sem tengdust skóginum, þar á meðal ólöglegu skógarhöggi og námuvinnslu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Í fyrri helmingi forsetatíðar Lula frá 2003 til 2010 dró verulega úr eyðingu frumskógarins sem bindur gríðarlegt magn kolefnis. Á síðara kjörtímabili hans gekk hann erinda landbúnaðariðnaðarins í auknum mæli.

Stjórn Lula ætlar að vinna með stjórnvöldum í Kongó og Indónesíu þar sem mestu hitabeltisfrumskóga jarðar utan Amason er að finna. Brasilískir fjölmiðlar hafa greint frá því að ríkin þrjú skoði að stilla saman strengi sína um stjórnun skóga og verndun líffræðilegs fjölbreytileika.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×