Lífið

Út­hlutað úr sjóði Vildar­barna í 34. sinn

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Styrkþegar ásamt stjórnendum Vildarbarna við úthlutunina.
Styrkþegar ásamt stjórnendum Vildarbarna við úthlutunina. Aðsent

Sextíu manns hlutu styrk úr sjóði Vildarbarna Icelandair í dag. Um er að ræða ellefu börn og fjölskyldur þeirra. Þetta er 34. úthlutun sjóðsins.

Á þeim nítján árum sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum hafa 717 fjölskyldur notið góðs af. Innifalið í hverjum styrk er skemmtiferð fyrir barnið sem um ræðir og fjölskyldu þess og er allur tilfallandi kostnaður greiddur. Þar með talið flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að þeim viðburði sem barnið óskar eftir því að fara á. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Tilgangur sjóðsins er að gefa langveikum börnum og börnum sem búa við erfið skilyrði ásamt fjölskyldu þeirra möguleika á að fara í draumaferð sem þau gætu annars ekki farið í. Fjármagn sjóðsins kemur úr mörgum áttum, meðal annars frá flugfélaginu sjálfu, framlögum frá meðlimum í Saga Club og með söfnun um borð í flugvélum Icelandair ásamt fleiru.

Sjóðurinn og starfsemi Vildarbarna byggir á hugsjón Peggy Helgason sem er eiginkona fyrrverandi forstjóra Flugleiða og stjórnarformanns Icelandair Group. Peggy hafði lengi unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur veikra barna á ýmsa vegu. Einnig er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, verndari sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×