Sport

Edda náði sínum besta árangri á Bermúda

Sindri Sverrisson skrifar
Guðlaug Edda Hannesdóttir kann greinilega vel við sig á Bermúdaeyjum.
Guðlaug Edda Hannesdóttir kann greinilega vel við sig á Bermúdaeyjum. Instagram/@eddahannesd

Guðlaug Edda Hannesdóttir tók í gær stórt stökk upp listann sem ræður því hvaða þríþrautarkonur keppa á Ólympíuleikunum í París 2024, þegar hún keppti á móti á Bermúda.

Mótið var hluti af heimsmótaröðinni í þríþraut, þeirri sterkustu í heimi, og gilti til stiga inn á ólympíulistann.

Eddu var raðað í sæti 40 af 47 keppendum fyrir keppnina en hún endaði í 28. sæti. Það er næstbesti árangur hennar á mótaröðinni ef horft er til sætis, en besti árangur ef horft er til stigafjölda inn á ólympíulistann.

Edda fékk nefnilega 122 stig, fór upp um 12 sæti og er í 78. sæti á ólympíulistanum, með 515,65 stig. Miðað við núverandi stöðu er hin tékkneska Tereza Zimovjanova síðust inn á Ólympíuleikana, með 651,13 stig í 64. sæti listans, en ljóst er að mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en endanlega verður ljóst hverjar fara til Parísar.

Í keppninni í gær var Edda í 30. sæti eftir fyrsta hluta, 1.500 metra sjósund, og hún vann sig upp í 22. sæti á þeim 40 kílómetrum sem keppendur hjóluðu. Í lokahlutanum, 10 kílómetra hlaupi, missti Edda hins vegar sex keppendur fram úr sér og hún endaði í 28. sæti eins og fyrr segir.

Heimakonan og ólympíumeistarinn Flora Duffy vann keppnina en hún kom í mark á heildartímanum 2:01,26 klukkustundum. Taylor Knibb frá Bandaríkjunum var í 2. sæti og Beth potter frá Bretlandi í 3. sæti. Edda kom í mark á 2:10,23 klukkustundum og var rétt rúmum sjö mínútum frá verðlaunasæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×