Erlent

Tvöfalt meiri hlýnun í Evrópu en á heimsvísu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ryðguð hjól í Rínarfljóti.
Ryðguð hjól í Rínarfljóti. epa

Hlýnun í Evrópu á síðastliðnum 30 árum hefur verið ríflega tvöföld á við þá hlýnun sem hefur átt sér stað á heimsvísu á sama tímabili. Um er að ræða mestu hækkun fyrir einstaka heimsálfu. Með aukinni hlýnun aukast líkur á því að hátt hitastig, gróðureldar, flóð og aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga hafi áhrif á samfélög, efnahag og vistkerfi.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um ástand loftlags í Evrópu. Veðurstofan greinir frá niðustöðum skýrslunnar á vef sínum.

Þar segir einnig að hiti í Evrópu hafi á árabilinu 1991-2021 hækkað um 0,5 gráður á selsíus á áratug. Afleiðingarnar séu meðal annars þynning jökla á Alpasvæðum og bráðnun ísbreiðunnar á Grænlandi sem valdi hækkandi sjávarstöðu víðast hvar um álfuna. 

Árið 2021 leiddi aftakaveður og aðrir loftslagstengdir atburðir til hundruða dauðsfalla, hafði bein áhrif á meira en hálfa milljón íbúa og olli fjárhagslegu tjóni sem nemur meira en 50 milljörðum Bandaríkjadala. Í skýrslunni segir að um það bil 84% þessara atburða hafi verið flóð eða óveður.

Sjá einnig: Hlýnun gerði þurrka í sumar tuttugufalt líklegri en ella

Aðalrittari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Tetteri Taalas segir hamfarir undanfarna mánuði minna á að þó samfélög séu vel undirbúin séu þau ekki örugg fyrir áhrifum aftakaveðurs. 

„Í ár, eins og árið 2021, hafa gríðarlegar hitabylgjur og þurrkar herjað á stór svæði í Evrópu og meðal annars leitt til gróðurelda. Árið 2021 leiddu mikil flóð til dauðsfalla og eyðileggingar,“ er haft eftir Tetteri. 

Yfirlit yfir nokkra atburði sem höfðu mikil áhrif á Evrópulönd árið 2021 (gögn frá Veður- og loftslagsþjónustu Þýskalands, DWD).veðurstofan

Ljós í myrkrinu

Samkvæmt skýrslunni hefur þó fjöldi Evrópuríkja náð góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Losun hjá ríkjum Evrópusambandsins hefur samkvæmt skýrslunni dregist saman um 31 prósent á árabilinu 1990-2020 og stefnt er að því að samdráttur verði 55% fyrir árið 2030. Evrópa stendur einnig framarlega hvað varðar samstarf um aðgerðir í loftslagsmálum þvert á landamæri auk þess sem álfan er leiðandi í þróun viðbragðsáætlana sem miða að því að tryggja öryggi íbúa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×