Sport

„Verðum að bera meiri virðingu fyrir færunum okkar“

Andri Már Eggertsson skrifar
Sölvi Snær Guðbjargarson og Óskar Hrafn Þorvaldsson í leik kvöldsins
Sölvi Snær Guðbjargarson og Óskar Hrafn Þorvaldsson í leik kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

.Breiðablik vann sannfærandi 3-0 sigur á Stjörnunni í kvöld. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með frammistöðu Breiðabliks.

„Frammistaðan var öflug að mörgu leyti þar sem við stjórnuðum leiknum. Við verðum samt að fara betur með möguleikana á síðasta þriðjungi. Við hefðum getað gert út um leikinn fyrr og það er það sem við þurfum að bæta og taka með okkur í næsta leik,“ sagði Óskar Hrafn í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

Óskar var svekktur með færanýtingu Breiðabliks en tók undir að þetta hafi verið saga Breiðabliks í sumar þar sem Blikar skapi sér mörg færi í hverjum leik.

„Mér finnst þetta vera saga liðsins upp á síðkastið. Þetta hefur gerst í síðustu 4-5 leikjum fyrir hlé og svo núna í þessum leik. Við verðum að vinna í þessu til að verða betri og við verðum að bera virðingu fyrir þeim færum sem við komumst í.“

Breiðablik er með átta stiga forystu á toppnum og með hagstæðum úrslitum getur Breiðablik orðið Íslandsmeistari fyrir norðan í næsta leik gegn KA.

„Það þýðir lítið fyrir okkur að hugsa um önnur úrslit. Við þurfum að fara til Akureyrar og KA er á dúndur siglingu með gott lið. Það er stutt síðan við fórum norður og spiluðum ágætlega en töpuðum.“

„Við þurfum að fara norður og spila betur heldur en í kvöld og vinna þann leik svo sjáum við hvar við stöndum eftir það,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×