Innlent

Skemmdir á gasleiðslum færa átökin nær Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Flugsveitir annarra NATO ríkja sinna reglulega flugrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli og þar fer fram ratsjáreftirlit alla daga ársins með umferð flugvéla og skipa í nágrenni Íslands.
Flugsveitir annarra NATO ríkja sinna reglulega flugrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli og þar fer fram ratsjáreftirlit alla daga ársins með umferð flugvéla og skipa í nágrenni Íslands. Vísir

Forsætisráðherra segir stjórnvöld fylgjast grannt með atburðarás stríðsins í Úkraínu og nú síðast skemmdarverkum á gasleiðslum í Eystrasalti sem færi átökin nær Íslendingum. Framlög til varnarmála hefðu verið aukin og mikilvæt væri að tryggja netöryggi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hóf sérstaka umræðu um öryggis- og varnarmál á Alþingi í morgun. Hún sagði stríð Rússa gegn Úkraínu hafa gerbreytt stöðu heimsmála. Þetta væri árás á saklaust fólk í Úkraínu en einnig árás á lýðræðið sjálft og sjálfstæði ríkja. Breyttar aðstæður kölluðu á stóraukið samstarf vestrænna lýðræðisríkja og þar væri Ísland engin undantekning.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir mikilvægt að Íslendingar auki samstarfið innan NATO og efli varnarsamninginn við Bandaríkin.Vísir/Vilhelm

„Það er alveg ljóst að aðgerðir Íslands í öryggis- og varnarmálum verða nú að taka mið af breyttri heimsmynd og nýjum ógnum vestrænna lýðræðisþjóða. Í þessu felst meðal annars virkara samstarf í gegnum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og aukin þátttaka okkar í borgaralegum verkefnum NATO,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún spurði hvernig stjórnvöld sæju fyrir sér að Ísland léti meira til sín taka innan NATO samstarfsins.

„Og það þarf líka að gera varnarsamstarfið við Bandaríkin virkara. Tryggja meðal annars að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti á netöryggi og tryggi órofið samband Íslands við umheiminn. Á sviði flutninga, orkuöryggis, fjarskipta, svp dæmi séu nefnd,“ sagði formaður Viðreisnar.

Rússar hafi ítrekað verið að kortleggja sæstrengina við Ísland, nú síðast í ágúst. Skemmdir á gasleiðslunum í Eystrasalti gerðu þetta mál enn mikilvægara.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók undir með formanni Viðreisnar að innrás Rússa í Úkraínu fæli í sér breytingar á öryggismálum á heimsvísu og þar væru Íslendingar ekki undanskyldir. Þjóðaröryggisstefna Íslands frá 2016 sem meðal annars fól í sér stofnun þjóðaröryggisráðs hefði sannað gildi sitt.

Bandaríkin, NATO og íslensk stjórnvöld hafa sett milljarða í fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli á undanförnum árum. Hér er ein af kafbátaleitarflugvélum Bandaríkjahers í nýuppgerðu flugskýli Landhelgisgæslunnar á öryggissvæði flugvallarins.Vísir/HMP

Katrín sagði að nú væri unnið að uppfærslu á mati ráðsins á þjóðaröryggismálum í ljósi innrásarinnar. Framlög til varnarmála hefðu verið aukin verulega á síðasta kjörtímabili.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld fylgjast grannt með atburðarás átakanna í Úkraínu og hafi brug'ðist við þeim.Vísir/Vilhelm

„Við höfum líka verið að auka framlög til netöryggismála. Sú áhersla fellur ekki af himnum ofan. Heldur metum við það svo að þar sé raunveruleg hætta á ferð. Því hafa framlög til þeirra verið markvisst aukin,“ sagði forsætisráðherra.

Skemmdarverk á gasleiðslum í Eystrasalti færðu atburðarásina nær Íslendingum.

„Og við höfum fylgst grannt með þessum atburðum og verið í samskiptum við okkar nágrannaríki um aðgerðir og viðbúnað. Við munum bregðast við í samræmi við þau gögn sem við fáum. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi að það er mjög mikilvægt að við treystum betur í sessi varasamband um gervihnetti og ráðumst í endurnýjun á ratsjár og fjarskiptakerfum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir

Svíar fundu fjórða lekann og Rússar benda á Bandaríkjamenn

Sænska landhelgisgæslan hefur fundið fjórða gaslekann á Nord Stream gasleiðslunum, samkvæmt Svenska Dagbladet. Blaðið hefur eftir talsmanni landhelgisgæslunnar að tveir af lekunum fjórum séu í sænskri lögsögu en hinir tveir eru í danskri lögsögu.

Leppstjórar biðja Pútín um innlimun

Leppstjórar Rússlands í Luhansk- og Donetsk-héruðum hafa beðið Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um að lýsa yfir innlimun héraðanna og annarra í rússneska sambandsríkið. Búist er við því að Pútín muni lýsa yfir innlimuninni á komandi dögum.

Telja gasleiðslurnar geta skemmst varanlega

Óttast er að rússnesku gasleiðslurnar tvær í Eystrasalti kunni að skemmast varanlega eftir skemmdarverk sem virðast hafa verið unnin á þeim. Þýski sjóherinn ætlar að taka þátt í rannsókn á lekanum.

Danir telja sprengingarnar hafa verið skemmdar­verk

Forsætisráðherra Danmerkur sagði á blaðamannafundi fyrr í kvöld að dönsk yfirvöld telji að sprengingarnar tvær, sem ollu leka á Nord stream gasleiðslunum í gær, hafi verið skemmdarverk. Hún sagðist þó ekkert geta gefið upp um hverjir eru taldir standa að baki skemmdarverkum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.