Hinn 23 ára gamli Araújo er lykilmaður í liði Barcelona sem hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga síðan Xavi Hernández tók við stjórnartaumunum á síðustu leiktíð. Liðið hefur leikið einkar vel á þessari leiktíð og hefur Araújo verið stór hluti af þeirri velgengni.
Miðvörðurinn hefur byrjað alla leiki Börsunga í deildinni og var í raun aðeins hvíldur í 5-1 sigrinum á Viktoria Plzeň í Meistaradeild Evrópu.
Ronald Araújo has decided to have surgery on his right thigh and will be out 2-3 months, missing the World Cup, per multiple reports pic.twitter.com/KehiAc8oaQ
— B/R Football (@brfootball) September 26, 2022
Araújo meiddist á læri í landsleikjahléinu og hefur ákveðið að fara undir hnífinn til að ná fullum bata. Það þýðir að miðvörðurinn spilar ekki meira á þessu ári og mun missa af heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í nóvember og desember á þessu ári. Hann hefur alls spilað 12 A-landsleiki fyrir þjóð sína en einhver bið verður eftir leik númer þrettán.
Araújo var ekki eini leikmaður Börsunga sem meiddist í landsleikjahléinu en franski varnarmaðurinn Jules Koundé meiddist einnig á læri. Óvíst er hversu lengi hann verður frá.