Innlent

Efast um að á­hugi sé fyrir of­beldis­­for­vörnum innan KSÍ

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hanna Björg Vilhjámsdóttir segir að KSÍ hafi ekki gert nóg í jafnréttismálum og ofbeldisforvörnum á þessu ári sem hefur liðið síðan Guðni Bergsson sagði af sér formennsku.
Hanna Björg Vilhjámsdóttir segir að KSÍ hafi ekki gert nóg í jafnréttismálum og ofbeldisforvörnum á þessu ári sem hefur liðið síðan Guðni Bergsson sagði af sér formennsku. vísir

Kynjafræðikennari efast um að áhugi sé fyrir jafnréttismálum og ofbeldisforvörnum innan KSÍ. Hún segir að ekki hafi verið gert nóg í málum KSÍ frá því að nýr formaður tók við sambandinu.

Ár er í dag síðan Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður Knattspyrnusambands Íslands í skugga skandals sem skók sambandið. Í ítarlegri umfjöllun á Vísi er því velt upp hvað KSÍ hafi raunverulega gert í málum sambandsins á þessu ári sem hefur liðið.

Þegar Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ tók við embættinu sagði hún að hreyfingin þyrfti að standa sig betur í þessum málum. Stjórn KSÍ samþykkti nýverið viðbragðsáætlun þar sem segir að þegar mál eru til meðferðar vegna meintra alvarlegra brota, skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir.

Þetta er eina breytingin sem sambandið hefur tilkynnt um frá því að málið kom upp fyrir ári síðan. Heildaráætlun virðist ekki liggja fyrir. Nefnd skipuð af ÍSÍ hefur sagt forgangsmál að klára forvarnaráætlun hjá sambandinu, en ljúka átti þeirri vinnu í apríl í fyrra. KSÍ hefur ekki uppfært siðareglur sínar, en í þeim er ekki minnst á ofbeldi. Þá hefur verið kallað eftir því að skýrt verði kveðið á um ofbeldismál í samningum við starfsfólk og leikmenn.

Efast um að áhugi sé fyrir ofbeldisforvörnum innan KSÍ

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðikennari, var hávær í umræðu um sambandið fyrir ári síðan, en hún segir að KSÍ hafi ekki gert nóg.

„Nei bara alls ekki. Það er eitthvað búið að gera veit ég, en í stóra samhenginu er það bara engan veginn nóg. Það er mjög jákvætt að Vanda sé á þessum stað en hún gerir ekkert ein. Hún þarf að hafa hreyfinguna á bakvið sig og ég er ekki viss um að það sé almennur áhugi í hreyfingunni fyrir jafnréttismálum eða ofbeldisforvörnum.“

Skorti fræðslu

Hún segir að ef áhugi væri fyrir jafnréttismálum í hreyfingunni væri búið að gera meira. Mikilvægt sé að koma á fræðslu fyrir þjálfara.

„Þjálfarar gegna svo miklu hlutverki, þeir þurfa góða og vandaða menntun og fræðslu þannig að þeir geti verið með jákvæð skilaboð og alið upp svolítið jákvæðar hugmyndir, karlmennskuhugmyndir og valdefla stelpurnar, þetta held ég að sé rosalega mikilvægt.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×