Sport

Lék sér að fyrrum bestu konu heims daginn eftir sigur á þeirri bestu í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Raducanu er að spila frábærlega þessa dagana og hver stórstjarnan á fætur annarri ræður ekkert við hana,
Emma Raducanu er að spila frábærlega þessa dagana og hver stórstjarnan á fætur annarri ræður ekkert við hana, EPA-EFE/WILL OLIVER

Breska tenniskonan Emma Raducanu er í miklu stuði þessa dagana og slær hverja stórstjörnuna út með sannfærandi hætti.

Hin nítján ára gamla Emma fylgdi eftir yfirburðasigur á Serenu Williams í fyrrinótt með því að vinna annan yfirburðasigur, nú á hinni hvít-rússnesku Victoriu Azarenka.

Raducanu vann 6-4 og 6-0 sigur í settunum á móti Serenu Williams og minna en sólarhring síðar vann hún 6-0 og 6-2 á móti Victoriu Azarenka.

Azarenka var um tíma efst á heimslistanum í tennis og hefur unnið tvö risamót. Williams er orðin fertug og að enda ferillinn en hún er að flesta mati sú besta sem hefur spilað tennisíþróttina.

Raducanu er því í góðum málum á þessu tennismóti í Cincinnati en hún er að undirbúa sig fyrir Opna bandaríska meistaramótið þar sem hún hefur titil að verja.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Raducanu síðan hún vann Opna bandaríska og tíðar þjálfarabreytingar hafa verið áberandi. Nú virðist hún hafa fundið taktinn á nýjan leik.

Emma varð súperstjarna í heimalandinu eftir sigurinn óvænta í fyrra og það hefur kallað á mikla pressu á þessa táningsstelpu.

Azarenka er nú í 22. sæti á heimslistanum en þetta var fyrstu sigur Emmu á topp þrjátíu konu síðan að hún vann Opna bandaríska mótið fyrir tæpu ári síðan.

Næst á dagskrá hjá Emmu á Western and Southern Open mótinu í Cincinnati eru sextán manna úrslit þar sem hún spilar á móti hinni bandarísku Jessicu Pegula.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×