Sport

Jóhanna Elín kveður EM og stefnir til Texas

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppti í þremur greinum á EM í Róm.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir keppti í þremur greinum á EM í Róm. SSÍ

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir lauk í dag keppni á Evrópumótinu í sundi í Róm með því að synda 50 metra skriðsund. Hún heldur nú brátt til Texas í Bandaríkjunum þar sem hún mun æfa sund samhliða háskólanámi.

Jóhanna Elín varð í 30. sæti í 50 metra skriðsundinu í dag en hún synti á 26,29 sekúndum. Sara Junevik frá Svíþjóð var síðust inn í undanúrslitin á 25,63 sekúndum. Jóhanna Elín synti í riðli tvö af fimm og varð í 6. sæti af tíu keppendum í þeim riðli.

Tími Jóhönnu Elínar er nálægt hennar besta en hún hefur best synt á 26,29 sekúndum, bæði í apríl og í maí síðastliðnum.

Þetta var þriðja grein Jóhönnu Elínar á EM en áður hafði hún lent í 30. sæti í 50 metra flugsundi og 28. sæti í 100 metra skriðsundi.

Ein grein er nú eftir hjá íslenska hópnum á EM en Símon Elías Statkevicius keppir í 50 metra skriðsundi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×