Erlent

Kenna kirkju­söfnuðum um mis­lingafar­aldur sem banað hefur átta­tíu börnum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hátt í 1100 börn hafa smitast af mislingum í Simbabve frá því í apríl ef marka má heilbrigðisráðherra landsins.
Hátt í 1100 börn hafa smitast af mislingum í Simbabve frá því í apríl ef marka má heilbrigðisráðherra landsins. Getty/Tafadzwa Ufumeli

Yfirvöld í Simbabve segja kirkjusöfnuðum um að kenna að áttatíu börn hafi látist úr mislingum síðan í apríl. Sjúkdómurinn hefur breiðst út um Simbabve undanfarnar mánuði og tæp sjö prósent þeirra sem hafa greinst með sjúkdóminn hafa látist úr honum. 

Jasper Chimedza heilbrigðisráðherra landsins skrifaði á Twitter fyrir helgi að 125 hafi greinst með sjúkdóminn þar í landi en grunur sé um 1.036 smit. Flest þeirra hafi komið upp í héraðinu Manicaland í austurhluta landsins. 

Þá bætti hann því við að rekja mætti flest smitanna til samkoma í kirkjum.

„Þessar samkomur sóttu einstaklingar frá mismunandi sveitum og bólusetningarsaga þeirra er óþekkt. Við teljum að með þessum samkomum hafi mislingar borist til svæða sem áður höfðu ekki orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum,“ skrifaði Chimedza á Twitter.

Manicaland er annnað fjölmennasta hérað Simbabve en þar sagði Chimedza að 356 tilfelli sjúkdómsins hafi komið upp á undanförnum mánuðum og 45 látist. 

Flest þeirra sem talin eru hafa smitast af sjúkdómnum hafa verið börn á allrinum sex til fimmtán mánaða. Að sögn Chimedza voru fæst þeirra bólusett gegn mislingum vegna trúarlegra ástæðna foreldranna. 

Margar af vinsælustu kirkjum Simbabve banna safnaðarmeðlimum að láta bólusetja sig og í raun þiggja nokkurs konar heilbrigðisþjónustu. Milljónir manna fylgja boðum þessarra kirkna, sem boða lausn undan fátækt og sjúkdómum. 

Yfirvöld hafa nú boðað miklar bólusetningaraðgerðir gegn mislingum en faraldurinn hefur þegar haft þung áhrif á heilbrigðiskerfið, sem fyrir er veikt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.