Innlent

Auglýsingaherferðir og stórar hugmyndir fyrir kjaraviðræður

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Atvinnurekendur og stéttarfélög eru farin á fullt í vinnu fyrir kjarasamningsgerð. Sumir keyra herferðir en aðrir eru með nýstárlegar hugmyndir og vilja lægja öldurnar.
Atvinnurekendur og stéttarfélög eru farin á fullt í vinnu fyrir kjarasamningsgerð. Sumir keyra herferðir en aðrir eru með nýstárlegar hugmyndir og vilja lægja öldurnar. vísir/skjáskot/einar

Bæði atvinnurekendur og leiðtogar stéttarfélaga eru svartsýnir fyrir komandi kjaraviðræður í haust. Á meðan smá stéttarfélög íhuga að ganga ekki sameinuð að samningaborðinu hefur Félag atvinnurekenda stungið upp á því að forstjórar stórfyrirtækja lækki laun sín.

Eftir að átök innan verka­lýðs­hreyfingarinnar virðast hafa náð há­marki sínu velta nú leið­togar nokkurra minni stéttar­fé­laga sem hafa skipt sér í hóp gegn leið­togum þeirra stærri hvort réttast væri að fara nýja leið í kjara­samnings­gerð í ár.

Þeim líst mörgum ekki á að fela Starfs­greina­sam­bandinu um­boð sitt til að gera samning við at­vinnu­rek­endur.

„Auð­vitað hefur maður velt þessu fyrir sér; hvað sé eðli­legast eða best ef að það stefnir í það að menn ætli í átök á­takanna vegna án þess að nánast að ræða hlutina og telja ekki full­reynt fyrr en það sé búið að fara í verk­fall,“ segir Þórarinn G. Sverris­son, for­maður Öldunnar stéttar­fé­lags.

Þórarinn er afar svartsýnn á framtíð ASÍ.skjáskot/Stöð 2

Á sama tíma reyna at­vinnu­rek­endur að lægja öldurnar og leita sátta­leiða.

Þannig skrifaði Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda, grein í Við­skipta­blaðið í gær þar sem hann leggur til að for­stjórar stærstu fyrir­tækja landsins lækki laun sín.

„Þar er hægt að nefna dæmi frá undan­förnum misserum um launa­hækkanir for­stjóra sem nema marg­földum verka­manna­launum, um að bónus­greiðslurnar til dæmis hjá fjár­mála­fyrir­tækjunum sem voru eigin­lega horfnar eftir hrun séu komnar aftur og arð­greiðslur séu svona býsna ríf­legar,“ segir Ólafur.

Afar svartsýnir fyrir kjaraviðræður

Það styttist í kjara­við­ræður og hags­muna­öflin eru þegar komin á fullt. Nafn­laus aug­lýsinga­her­ferð hefur til dæmis vakið tals­verð við­brögð á Face­book en Við­skipta­blaðið greindi frá því í gær að það væri VR sem stæði að baki henni. Þetta staðfestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við fréttastofu.

Hér má líta dæmi úr herferðinni. Við horfðum á aug­lýsinguna, sem má finna með því að klikka á slóðina hér að framan, með Ólafi í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hér má sjá skjáskot af Facebook-herferð VR, þar sem Þorsteinn Bachmann spilar stórt hlutverk.vísir/skjáskot

Þetta rímar nú svona að­eins við þær hug­myndir sem þú ert að tala um er það ekki?

„Já, já, þetta er bara á­gætt dæmi um þá um­ræðu sem verður til þegar þegar stóru fyrir­tækin mis­stíga sig svoldið og þau þurfa bara að gæta alveg sér­stak­lega vel að sér,“ segir Ólafur.

Hann telur nefni­lega hætt við að fólk leggi öll fyrir­tæki landsins að jöfnu.

„Það er að sjálf­sögðu hættan að menn setji alla at­vinnu­rek­endur undir sama hatt og segi það er nóg til þarna - er ekki nóg til alls staðar?“ segir Ólafur.

Það sé alls ekki raunin og smærri fyrir­tæki hafi lítið sem ekkert svig­rúm til launa­hækkana við efna­hags­á­standið eins og það er í dag.

Al­mennt eru báðar hliðar því svart­sýnar á kjara­við­ræðurnar.

„Það eru margir í mínu fé­lagi, minni at­vinnu­rek­endur, sem hafa miklar á­hyggjur af haustinu og á­standinu á vinnu­markaðinum. Þannig að jú það er ó­hætt að segja að menn eru ekkert ó­skap­lega bjart­sýnir á stöðuna,“ segir Ólafur og Þórarinn hjá Öldunni tekur í sama streng:

„Ég hef alla­vega ekki mikla trú á að hún skili ein­hverri tíma­móta­niður­stöðu. Já, ég hef pínu á­hyggjur af því,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×