Innlent

Tölvu­á­rás á Frétta­blaðið litin al­var­legum augum

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Blaðamannafélaga Íslands fordæmir tölvuárás sem gerð var á Fréttablaðið í morgun sem og tilraunir rússneska sendiráðsins til að hafa áhrif á fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af stríðinu í Úkraínu.

Netárás var gerð í morgun á vef Fréttablaðsins. Hótun barst ritstjórn blaðsins um að vefnum yrði lokað í kvöld verði hún ekki við beiðni um opinbera afsökun vegna myndar sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í samtali við Vísi að hann teldi Rússa standa að baki árásinni. Rússneska sendiráðið hér á landi fór fram á að blaðið fjarlægði mynd, sem sýnir Úkraínumann traðka á fána Rússlands, af vef sínum. Talsmaður sendiráðsins segir það ekki hafa átt neina að komu að tölvuárásinni.

Blaðamannafélag Íslands hefur nú brugðist við árásinni. Í tilkynningu á vef félagsins, sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður ritar, segir að stjórn BÍ fordæmi allar tilraunir til þess að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla og líti á tölvuárásina sem alvarlega tilraun til þess.

Hér að neðan má sjá ályktun BÍ í heild sinni:

Tölvuárás á vef Fréttablaðsins er alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils. Samkvæmt bréfi sem ritstjórn blaðsins barst í nótt er árás hótað vegna myndbirtingar Fréttablaðsins í umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu. Áður hefur rússneska sendiráðið á Íslandi krafist afsökunarbeiðni frá ritstjóra Fréttablaðsins vegna myndbirtingarinnar.

Mikilvægi sjálfstæðra og frjálsra fjölmiðla er sérlega mikilvægt í stríðsástandi og fordæmir Blaðamannafélag Íslands allar tilraunir til að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla frá stríðinu í Úkraínu. Fréttablaðið hefur kært málið til lögreglu sem hefur það nú til rannsóknar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.