Tónlist

„Þar er auðveldast fyrir mig að leyfa tilfinningunum að koma fram“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Hugrún var að gefa út smáskífuna Post-Apocalyptic love songs.
Tónlistarkonan Hugrún var að gefa út smáskífuna Post-Apocalyptic love songs. Aðsend

Tónlistarkonan Hugrún Britta Kjartansdóttir byrjaði sex ára gömul í tónlist og hefur komið víða að í þeim heimi. Hún er alin upp við klassíska tónlist og ætlaði sér aldrei að gera popptónlist en örlögin fóru með hana í óvænta átt.

Hugrún gaf nýverið út smáskífuna Post-Apocalyptic love songs og segir hún plötuna draumkennda og koma inn á ólík svið ástarinnar.

„Textarnir fjalla um fjórar tegundir af ást. Systra-ást, ást sem er byggð á hatri, hræðslu og ofbeldi, ást sem er ný og blómstrandi og ímyndaða ást sem varð aldrei neitt.“

Hugrún semur og syngur um ólík svið ástarinnar.Aðsend

Þegar Hugrún hóf tónlistarnám byrjaði hún að spila á franskt horn.

„Ég og systir mín Sólrún Mjöll vorum saman í lúðrasveit þangað til hún byrjaði að spila á trommur og ég skipti yfir í píanóið.“

Óvart popptónlist

Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá þessari tónlistarkonu.

„Næsta vor er ég að vonast til að taka framhaldspróf en ég setti það á pásu í þrjú ár þegar ég ákvað að flytja til Svíþjóðar. Í Svíþjóð kynntist ég fullt af tónlistarfólki og byrjaði að skrifa popptónlist alveg óvart. 

Ég ætlaði mér aldrei að gera popptónlist og var alltaf með smá fordóma fyrir því eftir að hafa alist upp í klassískum tónlistarskóla. Ég fattaði svo að það er algjör hugsanaskekkja og eiginlega bara gjörsamlega fáránlegt því tónlist snýst um svo miklu meira en að geta spilað sónötur. 

Samt enda ég alltaf á því að spila á píanóið ein inn í herbergi og þar er auðveldast fyrir mig að leyfa tilfinningunum að koma fram. Ég hélt líka alltaf að ég gæti ekki gert popptónlist því ég kann ekkert á tölvur. Þess vegna er ég líka svo þakklát fyrir pródúserinn minn sem skrifar og vinnur allt með mér í Svíþjóð og hefur kennt mér svo margt. Svo finnst mér bara ótrúlega gaman að semja og gera popptónlist þannig ég hætti þessu fordómabulli og er mjög sátt með útkomuna.“

Fór loks úr ofbeldissambandi

Platan Post-Apocalyptic Love Songs var skrifuð á síðasta ári og kláruð í vor.

„Hún fjallar um ástina sem ég hef upplifað eftir að þessi leiðinda veira skall á okkur öll. 

Þetta eru fjórar mjög ólíkar ástir sem ég fjalla um en til dæmis er eitt lagið um systur mína og okkar samband. 

Annað lag er um það þegar ég þorði loksins að fara úr ofbeldissambandinu sem ég var í og enn annað um glænýja ást sem er enn þá á mjög viðkvæmu og nýju stigi og við vitum bæði ekki neitt.“

Plötuumslagið fyrir Post-Apocalyptic love songs.Aðsend

Hugrún hlakkar til komandi tíma í tónlistinni en hún mun meðal annars spila á Hamraborg festival þann 27. ágúst næstkomandi. „Ég er mjög spennt fyrir því tækifæri,“ segir hún að lokum.


Tengdar fréttir

„Stórstjarna í Indie heiminum“ væntanleg til landsins

Tónlistarkonan Aldous Harding verður með tónleika í Hljómahöllinni þann 15. ágúst næstkomandi. Harding kom fram á Iceland Airwaves hátíðinni árið 2017 og hefur á undanförnum árum hlotið jákvæð viðbrögð frá gagnrýnendum fyrir plötur sínar.

„Bless í bili“

Tónlistarmennirnir Kristinn Óli Haraldsson og Jóhannes Damian Patreksson, einnig þekktir sem Króli og JóiPé ætla að gera upp síðustu sex árin á lokatónleikum sínum saman, í bili. Þeir verða þó ekki einir á sviðinu en Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ætlar einnig að spila með þeim.

Kvenkyns rokkarar slá til ærandi veislu fyrir augu og eyru gesta

Hljómsveitirnar Mammút og Kælan Mikla tilkynntu á dögunum tónleika sem haldnir verða í Gamla Bíói 16. september næstkomandi. Er þetta í fyrsta sinn sem böndin taka höndum saman þar sem þau munu spila það helsta af sínum ferlum í kraftmikilli, þungri og ærandi veislu fyrir augu og eyru gesta. Blaðamaður tók púlsinn á Ásu Dýradóttur í Mammút.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.