Innlent

Vill gera rekstur Sam­takanna '78 fyrir­sjáan­legri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Forsætisráðherra hyggst beita sér fyrir því að stærri hluti framlaga ríkisins til Samtakanna '78 verði gerður varanlegur - til þess að tryggja fyrirsjáanleika í rekstrinum. Vinna þurfi gegn mismunun með aukinni fræðslu.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrradag var rætt við framkvæmdastjóra Samtakanna '78 og fjárframlög ríkisins til samtakanna borin saman við nágrannalönd Íslands. Samtökin fá 15 milljónir á ári í svokölluð varanleg framlög, nokkuð minna en sambærileg samtök á Norðurlöndunum. Forsætisráðherra segir heildarframlög til samtakanna þó töluvert hærri.

„Frá því að ég tók við hér í forsætisráðuneytinu hafa þessi framlög aukist jafnt og þétt. Þau voru ekki nema ríflega sex milljónir þegar núverandi ríkisstjórn tók við 2017. tóðu í fyrra í ríflega 40 milljónum, að vísu er bara hluti af þeim framlögum svokölluð varanleg framlög, og það eru þessar 15 milljónir sem rætt var um í fréttum í gær,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Þannig hafi Alþingi veitt 24 milljónum til samtakanna á síðasta ári. Í samtali við fréttastofu sagði Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, að ákallið um meira fjármagn væri til komið svo samtökin gætu þróað rekstur sinn áfram og útvegað þjónustu sem hvergi annars staðar væri að fá.

Katrín segir skiljanlegt að Samtökin vilji hafa aukinn fyrirsjáanleika í sínum fjármálum.

„Og það sem ég hyggst núna beita mér fyrir, og hef verið að beita mér fyrir, er að stærri hluti þessara framlaga verði gerður varanlegur.“

Mikilvægt sé að Samtökin '78 standi styrkum fótum, sér í lagi vegna þess bakslags sem orðið hefur í viðhorfi samfélagsins til hinsegin fólks. Mikil framþróun hafi orðið í löggjöf þar að lútandi, en vígðstöðvarnar séu fleiri.

„Því við sjáum það að mismununin, hún finnur sér oft leiðir þrátt fyrir að löggjöfin hafi tekið miklum jákvæðum breytingum. Þannig að nú finnst mér verkefnið dálítið snúast um það hvernig við getum breytt menningunni og viðhorfunum. Þar er fræðsla auðvitað eitt af lykilatriðunum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.