Innlent

Lög­reglan varar fólk við að aug­lýsa ferða­lög á sam­fé­lags­miðlum fyrir helgi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Líklegt er að fjöldi fólks fari á flakk um helgina en lögreglan varar við því að það auglýsi það opinberlega.
Líklegt er að fjöldi fólks fari á flakk um helgina en lögreglan varar við því að það auglýsi það opinberlega. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með hefðbundið eftirlit um Verslunarmannahelgina. Hún biður íbúa á svæðinu að hafa augun opin með grunsamlegum mannaferðum en innbrotsþjófar herji gjarnan á yfirgefin heimili á þessari helgi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar segir að áhersla lögreglunnar í sumar hafi meðal annars verið á eftirlit með hraðakstri, notkun farsíma við akstur án handfráls búnaðar, ferðavögnum eða eftirvögnum og hættulegum framúrakstri. Sjaldnast hafi verið ástæða fyrir lögreglu til að kæra fyrir vanbúnað eftir- og ferðavagna en í nokkrum tilvikum hafi ökumönnum bent á atriði sem betur mættu fara, til dæmis að framlengja hliðarspegla. 

Í flestum tilvikum virðist ferðalangar huga vel að ástandi ferðavagna og ökutækja og passa að fyllsta öryggis sé gætt. Mikilvægt sé að þeir sem séu með slíka vagna í eftirdragi virði reglur um hámarkshraða, en þeir geti nú ekið á allt að 90 km/klst hraða þar sem slíkt er leyfilegt á þjóðvegi. Líklegt er að nokkuð verði um ökumenn með slíka vagna þessa helgi, þrátt fyrir slæma veðurspá. 

Lögreglan hvetur einmitt ferðalanga til að huga vel að veðurspá sem sé misslæm eftir landshlutum. Þá ítrekar lögreglan mikilvægi þess að fólk noti bílbelti, börn séu í viðeigandi barnabílstólum og allir ökumenn séu allsgáðir. Þá eru ferðalangar hvattir til að sýna þolinmæði í umferðinni og gæta sérstakrar varúðar við framúrakstur.

Fólk fylgist með grunsamlegum mannaferðum

Auk þessa umferðareftirlits mun lögreglan halda úti eftirliti í hverfum í umdæminu og ítrekar lögreglan að fólk láti vita um grunsamlegar mannferðir, taki jafnvel ljósmyndir ef slíkt er mögulegt og skrifi hjá sér til dæmis bílnúmer og jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt sést í nánasta umhverfi. 

Innbrotsþjófar fylgist gjarnan með húsum áður en látið er til skara skríða, hringja dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum. 

„Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum, t.d. að loka gluggum þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt,“ segir í tilkynningunni.

Þá hvetur lögreglan fólk til að kveikja útiljós séu þau til staðar. Slíkt einfaldi nágrönnum að sjá umferð eða mannaferðir við húsin. Sömuleiðis sé mikilvægt að fólk upplýsi ekki um fjarveru sína fyrir alrla augum þegar farið sé í frí, til dæmis með tilkynningu á samfélagsmiðlum. 

„Við óskum ferðalöngum góðrar ferðar og minnum alla á að sýna þolinmæði og tillitssemi í umferðinni. Við munum að sjálfsögðu standa vaktina á höfuðborgarsvæðinu nú sem endranær, en vonandi verður sem allra minnst að gera hjá lögreglumönnum í öllum umdæmum landsins!“


Tengdar fréttir

Var flogið á sína fyrstu Þjóðhátíð sem óvænt atriði

Sverrir Bergmann fór á sína fyrstu Þjóðhátíð fyrir 21 ári en þá var honum flogið til Vestmannaeyja til að flytja lagið Án þín fyrir brekkugesti. Hann hefur verið reglulegur flytjandi á hátíðinni síðan þá og kemur fram í ár bæði með hljómsveitinni Albatross og FM95Blö.

Ofbeldi eyðileggur góða skemmtun

Nú þegar Verslunarmannahelgin er framundan hlakkar marga eflaust til að koma saman og skemmta sér vel á útihátíðum vítt og breitt um landið. Það er eðlilegt, ekki síst í ljósi þess að síðastliðin tvö sumur hefur slíkt skemmtanahald legið í láginni vegna faraldursins. Nú skulum við sameinast um að halda góða skemmtun og koma öll heil heim. Því miður hefur það í áranna rás verið fylgifiskur útihátíða að þar á sér stað ofbeldi, ekki síst kynferðisofbeldi. Því verður að breyta og það getum við ef við leggjumst öll á eitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×