Erlent

Spá enn fleiri hitametum í Evrópu í dag

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svona var umhorfs í Wennington í nágrenni Lundúna eftir að gróðureldar loguðu á heitasta degi í sögu Bretlands.
Svona var umhorfs í Wennington í nágrenni Lundúna eftir að gróðureldar loguðu á heitasta degi í sögu Bretlands. getty

Ekkert lát virðist ætla að verða á ofsahita í Evrópu og er búist við því að enn fleiri hitamet falli í dag, meðal annars í Danmörku en mesti hiti sem hefur mælst þar í landi er 36,4 gráður.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Søren Jacobsen, veðurfræðingi, á síðu sinni þar sem hann telur líklegt að það met falli í dag en spáð er allt að 36 gráðu hita í Danmörku í dag. Fara þarf 47 ár aftur í tímann til að finna síðustu mælingar þar sem hitinn fór yfir 36 gráður í Danmörku en það gerðist þann 10 ágúst árið 1975. „Það met gæti vel fallið í dag,“ segir Søren og bætir við að það virðist sem að þurrkar og mikill hiti geisi um allt landið.

Spáin í Danmörku í dag.DR

Í gær, þriðjudag, hríðféllu hitametin og slökkviliðsmenn víða um Evrópu áttu í fullu fangi með að minnka skaðann. Í Bretlandi fór hitinn í fyrsta sinn yfir 40 gráður í gær og skógareldar geisuðu í nágrenni Lundúna.

Í Þýskalandi hefur hitinn ekki mælst meiri á þessu ári og í Portúgal hefur dauðsföllum fjölgað mikið síðustu daga eftir linnulausa skógarelda þar í landi. Fleiri svæði lengra til norðurs eru sömuleiðis í aukinni hættu fyrir skógareldum og í Belgíu og Hollandi er gert ráð fyrir methita.

Búast við því versta

Alþjóðaveðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna hefur samt sem áður varað við því að búast megi við enn skæðari skógareldum á næstunni. Hitabylgjur hafa orðið mun algengari á síðustu árum og vara lengur vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.

„Í framtíðinni munu svona hitabylgjur verða daglegt brauð og við munum sjá enn meiri öfga í veðri,“ sagði forstjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunar SÞ Peterri Taalas.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.