Erlent

Verði grýtt til dauða fyrir hjú­skapar­brot

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tvítug súdönsk kona hefur verið dæmd til að vera grýtt til dauða fyrir hjúskaparbrot. Mannréttindastofnanir telja að valdarán súdanska hersins á síðasta ári hafi hvatt löggjafa þar í landi til að hrekja til baka ýmsar mannréttindabætur kvenna þar í landi.
Tvítug súdönsk kona hefur verið dæmd til að vera grýtt til dauða fyrir hjúskaparbrot. Mannréttindastofnanir telja að valdarán súdanska hersins á síðasta ári hafi hvatt löggjafa þar í landi til að hrekja til baka ýmsar mannréttindabætur kvenna þar í landi. EPA/Marwan Ali

Súdönsk kona hefur verið dæmd til að vera grýtt dauða fyrir hjúskaparbrot en dómurinn er sá fyrsti af þessu tagi í Súdan í níu ár. Mannréttindastofnanir segja dóminn brjóta innlend og alþjóðleg lög og krefjast frelsunar konunnar.

Maryam Alsyed Tiyrab, tuttugu ára gömul súdönsk kona, var handtekin af lögreglu í síðasta mánuði og hefur nú verið dæmd fyrir hjúskaparbrot. Tiyrab hyggst áfrýja dómnum en í meirihluta tilvika þar sem fólk er dæmt til að vera grýtt til dauða, sem eru meira og minna konur, er dómunum snúið við í hæstarétti. Síðast var kona dæmd til að vera grýtt til dauða árið 2013 en þá var dómnum snúið við.

Mannréttindastofnunin ACJPS, sem berst fyrir mannréttindum í Súdan, segir dóminn gegn Tiyrab brjóta bæði lög Súdan og alþjóðleg lög. Jafnframt krefjast þau „tafarlausrar og skilyrðislausrar frelsunar“ hennar. Þá segir stofnunin Tiyrab ekki hafa fengið réttláta málsmeðferð og henni hafi verið neitað um réttargæslumann.

Jehanne Henry, mannréttindalögfræðingur, sagði dóminn sýna að það væri enn verið að framkvæma ströng sjaría-lög og refsingar í Súdan. Hann sé til marks um að strangar og úreltar refsingar séu enn við lýði og þær réttarbætur sem átti að gera á lögum Súdan árið 2020 væri ekki lokið.

Nánar má lesa um málið í frétt Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×