Innlent

„Það er pólitísk nálykt af þessu“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Andrés telur það enga tilviljun að í fyrsta skipti sem breyting á aðalskipulagi sem ryður leið að vindorkuverum fyrir almennan markað sé samþykkt sé það í landi nátengdu Framsóknarmönnum.
Andrés telur það enga tilviljun að í fyrsta skipti sem breyting á aðalskipulagi sem ryður leið að vindorkuverum fyrir almennan markað sé samþykkt sé það í landi nátengdu Framsóknarmönnum. Vísir/Samsett/vilhelm/aðsend

Skipulags­stofnun hefur sam­þykkt aðal­skipu­lags­breytingu sveitar­fé­lagsins Dala­byggðar vegna tveggja vindorku­vera, annars vegar í landi Hróð­nýjar­staða og hins vegar í Sól­heimum. Inn­viða­ráð­herra hafði áður synjað sveitar­fé­lögunum um stað­festingu á sam­bæri­legum breytingum vegna þess að þær sam­ræmdust ekki lögum um ramma­á­ætlun en með breyttri skil­greiningu á svæðinu virðist það vandamál hafa verið leyst. Verk­efna­stjóri hjá Land­vernd er afar ósáttur yfir málinu og segir pólitíska ná­lykt af því.

„Þarna er búið að setja fram og stað­festa stefnu sveitar­fé­lags um stór­kost­lega grófa iðnaðar­starf­semi,“ segir Andrés Skúla­son, verk­efna­stjóri hjá Land­vernd, sem hefur fylgst lengi með málinu. Það hefur verið pólitískt hita­mál í sveitar­fé­laginu lengi og Andrés segir þessa breytingu sveitar­fé­lagsins þvert á vilja stórs hluta sam­fé­lagsins.

„Það á að setja laga- og reglu­um­gjörð um þetta á komandi þing­vetri. Og í staðinn fyrir að bíða eftir því er sveitar­fé­lagið búið að eyða mökk af fjár­munum í að skipu­leggja vindorku­ver í slag við í­búana. Því sam­fé­lögin þarna eru klofin í herðar niður í kring um þessi mál,“ segir Andrés.

Komu breytingunum loks í gegn

Dalabyggð hefur áður reynt að koma breytingunum í gegn en Skipulagsstofnun ekki viljað samþykkja þær vegna ýmissa vankanta. Málinu var þá skotið til innviðaráðherra í vor sem hafnaði einnig breytingunum

Með breytingunum átti að breyta landbúnaðarsvæði í landi Sól­heima og Hróð­nýjar­staði í iðnaðarsvæði en með því að gera það einnig að svokölluðu varúðarsvæði komst málið í gegn um Skipulagsstofnun nú í lok júnímánaðar. 

Þetta er í fyrsta skipti sem slík breyting á aðalskipulagi er sam­þykkt undir vindorku­ver fyrir almennan markað en það eru fé­lögin Qu­adran og Storm Orka sem vilja reisa þar vind­orkuver.

Andrés kveðst viss um að pólitísk tengsl hafi greitt fyrir málinu en fjöl­skylda Ás­mundar Einars Daða­sonar, hefur verið stór­tæk í jarða­upp­kaupum í Dölum síðustu ár. Stundin fjallaði ítar­lega um þau árið 2018.

„Inn­viða­ráð­herra átti náttúru­lega enga aðra úr­kosti en að fara eftir til­lögu Skipu­lags­stofnunar og synja Dala­byggð fyrst um breytinguna, því hún var ekki í sam­ræmi við lög. En það er al­gjör­lega ljóst að eitt­hvað hefur gerst í milli­tíðinni sem verður þess valdandi að það liggur svona á að keyra þetta í gegn. Og þá skulum við ekkert horfa fram hjá því að þetta er fyrsta skipu­lagið sem er stað­fest fyrir er­lent orku­fyrir­tæki… Það er bara ó­vart í landi sem er ekki ó­skylt Fram­sóknar­flokknum. Það er pólitísk ná­lykt af þessu,“ segir Andrés.

Fólk átti sig ekki á áhrifunum

Hann bendir á að á fjórða tug vindorku­kosta hafi verið komnir inn í ramma­á­ætlun. Um 90 prósent þeirra séu í er­lendri eigu. „En öll þessi fyrir­tæki eru með ís­lenska milli­liði. Þetta eru fyrir­tæki sem hafa lent í mála­ferlum vegna á­gengni sinnar við nær­sam­fé­lögin er­lendis. Og þá skulum við endi­lega reyna að draga þau sem bera enga virðingu fyrir sam­fé­laginu þvert yfir landið!“

Andrés er eins og flestir sjá ansi mót­fallinn upp­byggingu vindorkuvera hér á landi. Hann skýrir mál sitt; lítil sem engin at­vinna fáist af þeim og þeir séu mun meira mengandi en al­mennt sé haldið fram í um­ræðunni.

„Það vantar fyrir­hyggju og fram­tíðar­sýn hér. Það hefur ekki átt sér stað nein vit­ræn um­ræða um vindorku­ver hér á Ís­landi. Það má benda á það að sam­kvæmt þeim upp­lýsingum sem bestar eru hafðar í dag þá eru að puðrast út í loftið svona um 60 kíló af ban­eitruðu örplasti frá einni svona vindmyllu á ári,“ segir Andrés.

Þá sé um­hverfis­þátturinn gríðar­legur. Mikið jarð­rask hljótist af stórum vindorkuverum og Land­vernd hefur áður lýst yfir gríðar­legum á­hyggjum af áhrifum vindorkuvera á haförninn sem á ein­mitt heima í Dölunum.

„Það er engin önnur tegund af orku sem mun hafa jafn skað­leg á­hrif á ís­lenska náttúru og líf­ríki eins og þetta. Þetta eru náttúruspjöll af áður óþekktri stærðargráðu yrði þetta að veruleika,“ segir Andrés.

Uppfært 8:28: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar stóð í inngangi að Umhverfisstofnun hafi sam­þykkt aðal­skipu­lags­breytingu sveitar­fé­lagsins Dala­byggðar vegna vindorku­veranna. Hið rétta er að Skipulagsstofunun hafi samþykkt breytinguna og hefur fréttinni verið breytt í samræmi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×