Innlent

Segir „glóru­laust“ að heimila heim­sendingu á­fengis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ. Vísir/Hulda Margrét

„Fyrir fólkið okkar sem á við vanda að stríða kallar það á ýmsa snúninga að þurfa að fara í Ríkið. Kannski þarf að panta leigubíl, kannski skammast fólk sín og fer í fleiri en eitt Ríki. En þarna fær fólk heimsent áfengi, einn tveir og þrír. Þetta auðveldar áfengisinnkaup og afleiðingar geta orðið mjög slæmar.“

Þetta segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í samtali við Fréttablaðið.

Anna Hildur segir ákvörðun stjórnvalda að heimila heimsendingu á áfengi „glórulausa“ þar sem rannsóknir hafi sýnt að það auki fíknivandann. Hún bendir meðal annars á að dagdrykkja eldri borgara hafi tvöfaldast, þrátt fyrir skorður við áfengissölu.

Heimkaup tilkynntu í vikunni að fyrirtækið hygðist hefja áfengissölu í gegnum netið, þar sem áfengið yrði keyrt heim að dyrum. Þetta getur fyrirtækið gert með því að nota félag í Danmörku sem söluaðila, Heimkaup ApS, en hið íslenska Heimkaup sér um dreifinguna.

Fréttablaðið hefur eftir Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að það sé fráleitt að innlendir aðilar geti ekki boðið upp á sömu þjónustu og erlend fyrirtæki. 

„Vandinn er sá að lögin eru ekki í takti við nútímann og þess vegna hefði verið farsælt skref að samþykkja frumvarp Hildar Sverrisdóttur í vor; eyða óvissu sem er til staðar,“ segir Óli Björn. Hann segir að löggjafanum beri að tryggja jafnræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×