Innlent

Rúmlega 540 þúsund gölluðum fínagnagrímum fargað

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
visir-img
Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Landspítalinn festi kaup á tæplega fimmtán milljónum eininga af hlífðarbúnaði á síðustu tveimur árum vegna Covid-19 heimsfaraldursins, kostnaður hlífðarbúnaðarins nemur rúmlega 1,5 milljarði íslenskra króna. Þetta kemur fram í svari Landspítalans við fyrirspurn fréttastofu.

Þann 13. júní síðastliðinn fjallaði fréttastofa um eyðslu breskra stjórnvalda í gallaðan hlífðarbúnað og förgun þess. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um stöðu Íslands hvað þetta varðar. Í svari til fréttastofu greinir talsmaður Landspítalans frá því að spítalinn hafi fargað 543 þúsund einingum af gölluðum hlífðarbúnaði, nánar til tekið fínagnagrímum.

Fínagnagrímurnar voru af gerðinni FFP2 eða N95 og eru samkvæmt embætti landlæknis veiruheldar grímur sem séu „sérstaklega hannaðar til notkunar fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem annast fólk með sjúkdóma sem berast með loftbornu smiti t.d. COVID-19, inflúensu, berkla eða mislinga.“ 

Fínagnagrímurnar sem Landspítalinn fargaði stóðust ekki gæðakröfur sem meðal annars eru nauðsynlegar til CE vottunar.

Hvað varðar notaðan hlífðarbúnað þá er honum fargað með brennslu hjá Kölku sorpeyðingarstöð. Landspítalinn festi einnig kaup á 35 þúsund sýnatökusettum í byrjun faraldursins sem var fargað með brennslu en sýnatökusettin þóttu ekki nógu nákvæm.

Aðföng fyrir Covid prófefni voru keypt fyrir 5,5 milljarða íslenskra króna en þessi upphæð á við um öll aðföng sem prófunum fylgja svo sem sýnatökupinna- og glös.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×