Erlent

Rann­saka skot­á­rásina í Osló sem mögu­legt hryðju­verk

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaður lögreglumaður á vettvangi skotárásarinnar í Osló í nótt. Byssumaðurinn hóf skothríð fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks.
Vopnaður lögreglumaður á vettvangi skotárásarinnar í Osló í nótt. Byssumaðurinn hóf skothríð fyrir utan bar sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks. AP/Javad Parsa/NTB

Norska lögreglan segist rannsaka hvort að mannskæð skotárás við skemmtistað hinsegin fólks í miðborg Oslóar í nótt hafi verið hryðjuverkaárás. Gleðigöngu Oslóar sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst vegna árásarinnar.

Tveir eru látnir og fjórtán særðir eftir að maður hóf skothríð við skemmtistaðinn London Pub sem er vinsæll á meðal hinsegin fólks. Skipuleggjendur gleðigöngunnar tilkynntu á Facebook-síðu sinni að allir viðburðir tengdir henni færu ekki fram að ráðum lögreglunnar.

Árásarmaðurinn var handtekinn á vettvangi. Hann er er norskur ríkisborgari af írönskum uppruna. Lögreglan segist þekkja til mannsins en ekki vegna stórglæpa. Hún lagði hald á skammbyssu og sjálfvirkt skotvopn.

Átta þeirra sem særðust eru nú á sjúkrahúsi, að sögn Tore Barstad, talsmanns lögreglunnar. Norska ríkisútvarpið NRK segir að enginn þeirra særðu sé lengur talinn í lífshættu.

Á fréttamannafundi í morgun sögðu fulltrúar lögreglunnar að maðurinn, sem er 42 ára gamall, sé sakaður um morð, tilraun til manndráps og hryðjuverk. Gengið sé út frá að fyrir honum hafi vakað að skapa ótta en ekki hefur verið útilokað að hann eigi við geðræn vandamál að stríða.

Fréttamaður NRK sem varð vitni að árásinni segist hafa séð árásarmanninn taka skotvopn upp úr poka og byrja að skjóta.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, segir að þó að ekki liggi fyrir hvað vakti fyrir morðingjanum þá hafi árásin valdið hinsegin samfélaginu ótta og sorg.

„Við stöndum öll með ykkur,“ skrifaðir Gahr Støre á Facebook-síðu sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×