Sport

Útilokar ekki að keppa tveimur dögum eftir að hafa fallið í yfirlið í lauginni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anita Alvarez færð á börur eftir að það leið yfir hana í úrslitum í einstaklingskeppni í listsundi á HM í 50 metra laug.
Anita Alvarez færð á börur eftir að það leið yfir hana í úrslitum í einstaklingskeppni í listsundi á HM í 50 metra laug. getty/Dean Mouhtaropoulos

Bandaríska listsundkonan Anita Alvarez útilokar ekki að keppa í úrslitum í liðakeppni á HM í 50 metra laug í Búdapest í dag, aðeins tveimur sólarhringum eftir að það leið yfir hana í úrslitum í einstaklingskeppninni.

Þjálfari Alvarez, Andrea Fuentes, bjargaði líklega lífi hennar eftir að hún féll í yfirlið eftir að hafa lokið æfingum sínum í úrslitum í einstaklingskeppninni í fyrradag. Fuentes stakk sér ofan í laugina og kom í veg fyrir að Alvarez drukknaði.

Í viðtali við NBC ræddi Alvarez um atvikið og þakkaði Fuentes lífsbjörgina. „Mér fannst þetta vera frábær frammistaða, sú besta hjá mér hingað til. Ég var ekki bara ánægð með frammistöðuna heldur naut ég mín í botn og lifði í augnablikinu. Ég var mjög ánægð og stolt,“ sagði Alvarez.

„Ég lagði allt í þetta allt til loka, gerði handahreyfingu og man svo að ég sökk og leið ekki of vel. Það er það síðasta sem ég man.“

Alvarez segist líða vel og segir ekki loku fyrir það skotið að hún keppi í úrslitum í liðakeppninni í dag.

„Ég þakka fyrir öll skilaboðin og stuðninginn. Ég vona að allir virði það við mig og liðið að við eigum enn tvo keppnisdaga til að einbeita okkur að hér í Búdapest. Hvort sem það verður í vatninu eða á hliðarlínuna er undir mér og sjúkraliðinu komið. En sama hvað gerist eigum við liðið enn eftir að klára verkefnið og ég vona að allir skilji það,“ sagði hin 25 ára Alvarez sem lenti í 7. sæti í einstaklingskeppninni.

Alvarez féll einnig í yfirlið á úrtökumóti fyrir Ólympíuleikana í fyrra. Líkt og í fyrradag þurfti Fuentes að stinga sér til sunds og bjarga henni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.