Sport

Anton Sveinn í sjötta sæti á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anton Sveinn Mckee gerði vel á HM í sundi.
Anton Sveinn Mckee gerði vel á HM í sundi. EPA-EFE/ROBERT PERRY

Sundkappinn Anton Sveinn Mckee hafnaði í sjötta sæti í 200 metra bringusundi í 50 metra laug á heimsmeistaramótinu í sundi í Búdapest í dag.

Anton kom í mark á tímanum 2:09.37, en Ástralinn Zac Stubblety-Cook, sem kom fyrstur í mark, var á tímanum 2:07.07. Annar varð Japaninn Yu Hanagaruma á tímanum 2:08.38, ásamt Svíanum Erik Persson sem kom á sama tíma í mark.

Anton byrjaði sundið vel og var þriðji þegar sundið var hálfnað og fyrstur þegar komið var að seinustu ferðinni. Þá dró hins vegar af honum og hann kom á endanum sjötti í mark.

Anton er aðeins fimmti Íslendingurinn sem kemst í úrslit á HM í sundi í 50 metra laug. Eðvarð Þór Eðvarðsson gerði það fyrstur árið 1986, Örn Arnarsson árið 2001 þegar hann varð annar í 100 metra baksundi og þriðji í 200 metra baksundi og Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir komust báðar í úrslit árið 2015. Hrafnhildur varð þá sjötta í 100 metra bringusundi og sjöunda í 50 metra bringusundi. Eygló hafnaði í áttunda sæti í 200 metra baksundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×