Sport

„Meiri árangur að verða deildarmeistari heldur en bikarmeistari“

Andri Már Eggertsson skrifar
Stefán Arnarson hefur sjö sinnum orðið deildarmeistari
Stefán Arnarson hefur sjö sinnum orðið deildarmeistari Vísir/Hulda Margrét

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var í skýjunum eftir sjö marka sigur á Val 24-17. Fram tryggði sér deildarmeistaratitilinn og þykir Stefáni afar vænt um þennan bikar.

„Við breyttum um vörn í leiknum, við höfum aðeins einu sinni spilað þessa vörn í vetur og það gekk frábærlega. Hafdís Renötudóttir var frábær í markinu sem skilaði afar góðum sigri,“ sagði Stefán eftir leik.

Fram spilaði ekki sína hefðbundnu vörn og er óhætt að segja að það upplegg Stefáns hafi virkað fullkomlega.

„Við höfum lítið spilað þessa vörn þannig mögulega kom þetta Val á óvart en Ágúst Jóhannsson er yfirleitt undirbúinn fyrir allt og var þetta fyrst og fremst frábær sigur,“ sagði Stefán aðspurður hvort varnarleikur Fram hafi komið Val á óvart.

Fram tryggði sér deildarmeistaratitilinn í dag og talaði Stefán afar vel um þann titil.

„Ég hef sagt það í öllum viðtölum síðustu tólf ár að mér þykir vænst um þennan titil. Ég er að vinna deildarmeistaratitilinn í sjöunda skiptið og er ég mjög stoltur að því að vinna þennan titil og nýt þess. Bikarmeistaratitillinn er alltaf frábær upplifun en mér finnst miklu meiri árangur að verða deildarmeistari,“ sagði Stefán og bætti við að hann sé ekki að gera lítið úr bikarmeisturunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×