Sport

Úkraínsk í­þrótta­kona sýnir Rússum sann­leikann á Insta­gram reikningi Þjóð­verja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anastasija Merkushyna talar til Rússa á Instagram reikningi Eric Lesser.
Anastasija Merkushyna talar til Rússa á Instagram reikningi Eric Lesser. Instagram/@erik.lesser

Rússnesk stjórnvöld gera allt til þess að þegnar þeirra fái ekki að vita sannleikann um hvað er í gangi í innrás þeirra í Úkraínu.

Anastasija Merkushyna er skíðaskotfimikona frá Úkraínu og hún fékk hjálp við að segja rússneskum almenningi sannleikann um innrásina.

Þýski skíðaskotfimikappinn Erik Lessers lánaði henni nefnilega Instagram-reikning sinn svo að hún gæti sagt frá því sem væri í gangi.

Hinn 33 ára gamli Lessers er með yfir 150 þúsund fylgjendur og þar sem að skíðaskotfimi er vinsæl íþrótt í Rússlandi þá eru margir þeirra þeirra Rússar.

Hann er vanur að vera með skemmtileg innslög um líf sitt sem skíðaskotfimimaður en það var mun alvarlegri tónn í færslum síðustu viku.

„Ég taldi rétt að sýna Rússum sannleikann og ekki bara þá útgáfu sem þeir fá í rússneskum fjölmiðlum,“ sagði Erik Lesser við NRK.

Anastasija Merkushyna nýtti sér þetta góða boð og á síðustu dögum hefur hún birt fullt af færslum frá Úkraínu á Instagram reikningi Þjóðverjans og hún hefur í þeim talað beint til Rússa.

„Hæ, ég heiti Anastasija Merkushyna og ég vil sýna ykkur stríðið í gegnum mín augu,“ sagði hin úkraínska í fyrstu færslu sinni.

Hún sagði frá því að það væri erfitt að finna sannleikann um svona stríð og því fékk hún vini sína til að taka myndir af stöðu mála. Þær myndir hefur hún birt. Það er því ekki fallegur sannleikur sem hún hefur fært Rússum síðustu daga.

TV 2 í Noregi segir að þrjátíu þúsund Rússar hafi verið í fylgjendahópi Lesser en að þeim hafi þegar fækkað um tíu þúsund. Það er hins vegar ljóst að viðbrögðum og athugasemdum við færslurnar að þetta kemur mörgum Rússum mikið á óvart.

Það er líka mikið um kveðjur til Anastasiju þar sem rússneskir ríkisborgarar þakka henni fyrir að sýna veruleikann sem þeir vissu ekkert um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×