Innlent

Flestar beiðnir um nektarmyndir koma frá ókunnugum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stelpur eru líklegri en strákar til að verða fyrir kynferðislegu áreiti á netinu.
Stelpur eru líklegri en strákar til að verða fyrir kynferðislegu áreiti á netinu.

Algengast er að börn og ungmenni séu beðin um það af ókunnugum að senda eða deila af sér nektarmyndum. Fjögur af hverjum tíu börnum í 8. til 10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd og meira en helmingur ungmenna á framhaldsskólaaldri.

Þetta kemur fram í sameiginlegri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um niðurstöður könnunarinnar „Börn og netmiðlar“.

Í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd segir að á báðum skólastigum sé mun algengara að stelpur fái beiðni um að senda eða deila nektarmyndum. Um það bil 20 prósent nemenda í 8. til 10. bekk hafi fengið kynferðisleg „komment“ á netinu en 29 prósent nemenda í framhaldsskóla.

Stúlkur eru líklegri til að fá kynferðislegar athugasemdir og hlutfallið eykst með aldrinum.

„Um helmingur þátttakenda sem fengu kynferðisleg komment á netinu valdi valmöguleikann „mér var sama“ til þess að lýsa upplifun sinni af því. Þriðjungi nemenda í 8.-10. bekk fannst viðbjóðslegt að fá slík skilaboð og 11% til viðbótar sögðust hafa fundið fyrir hræðslu. Á framhaldsskólastigi fannst 27% þátttakenda viðbjóðslegt að fá slík skilaboð og 9% fundu fyrir hræðslu. Mun fleiri stelpum en strákum finnst viðbjóðslegt að fá kynferðisleg komment á netinu,“ segir í tilkynningunni.

Stelpur eru mun líklegri en strákar til að hafa fengið sendar nektarmyndir en í framhaldsskóla hafa nær sjö af tíu stúlkum fengið slíkar myndir. Sama hlutfall hefur fengið beiðni um að senda nektarmynd.

Hér má finna niðurstöðurnar í heild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×