Innlent

Píla komin í faðm eigenda sinna: „Svo ótrúlega glöð að fá hana aftur“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Margrét Birgisdóttir og Elías Andri Karlsson með Pílu sína. 
Margrét Birgisdóttir og Elías Andri Karlsson með Pílu sína. 

„Mér finnst þetta bara ótrúlegt. Ég fór í þvílíkan tillfinningarússíbana en var svo ótrúlega glöð að fá hana aftur. Hún er líka rosa glöð að vera komin heim,” segir Margrét Birgisdóttir, eigandi hundsins Pílu, sem fannst loks í gær eftir þriggja vikna leit.

Pílu hefur verið leitað síðan 6. janúar, eftir að hafa fælst vegna flugelda. Leitin var umfangsmikil og íbúar í Bolungarvík, Hnífsdal og á Ísafirði lögðust á eitt við að finna hundinn og birtu allar mögulegar vísbendingar á Facebook síðunni Leit að Pílu.

Það dró síðan til tíðinda í gær þegar kajakræðari kom auga á hana – þar sem hún var lengst uppi í þverhníptu klettabelti í Bolungarvík. Um tuttugu björgunarsveitarmenn héldu upp á fjall og sóttu Pílu, þó ekki vandkvæðalaust, enda þurftu þeir að festa sig í línur og síga síðan niður með hundinn.

„Þetta var bara ótrúlegt. Samfélagið stóð algjörlega saman í gær og ég hef bara ekki kynnst öðru eins,” segir Margrét, sem er vonum ánægð með að fá Pílu sína í fangið. Síðustu vikur hafi hins vegar verið afar strembnar.

Píla í uppáhalds stólnum sínum.

„Ég krassaði algjörlega á viku tvö. Ég var búin að leita svo mikið og með dóttur mína í eftirdragi og reyndi svo mikið að finna hana. Þetta tók mikið á mig,” segir Margrét og bætir við að veðrið hafi verið mjög óhagstætt til leitar.

Píla var búin að grafa sig ofan í fönn og þó ekki sé vitað hve lengi hún dvaldi þar telur Margrét það hafa orðið henni til lífs – þar hafi hún líklega náð að standa af sér veðrið.

Píla, sem er tíu ára Border Collie tík, braggast furðu vel að sögn Margrétar, þó hún sé heldur grönn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.