Innlent

Söfnuðu ríf­lega 1,3 milljónum radd­sýna

Eiður Þór Árnason skrifar
Börkur Vígþórsson, skólastjóri Smárskóla, nemendurnir Emilía Guðný Magnúsdóttir og Lúkas-Matei Danko, auk Elizu Reid forsetafrúr. Myndin var tekin þegar keppnin var ræst þetta árið í Smáraskóla en hann vann keppnina í fyrra. 
Börkur Vígþórsson, skólastjóri Smárskóla, nemendurnir Emilía Guðný Magnúsdóttir og Lúkas-Matei Danko, auk Elizu Reid forsetafrúr. Myndin var tekin þegar keppnin var ræst þetta árið í Smáraskóla en hann vann keppnina í fyrra.  Aðsend

Ríflega 1,3 milljónir raddsýna söfnuðust í Lestrarkeppni grunnskólanna sem lauk í gær. Um er að ræða tvöföldun milli ára en alls tóku 118 skólar þátt og lögðu 5.652 manns sínum skóla lið í keppninni.

Keppt var um fjölda setninga sem skólar lásu inn í Samróm en því verkefni er ætlað að safna upptökum af lestri sem notaðar eru til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku.

Fram kemur í tilkynningu að mikil spenna hafi myndast á lokasprettinum og var síðasti dagur keppninnar sá langstærsti til þessa. Þá lásu keppendur inn 487.936 setningar.

Salaskóli, Smáraskóli og Höfðaskóli fremst í sínum flokki

Salaskóli sigraði í flokki A, flokki stærri skóla, og lásu 703 keppendur 107.075 setningar.

Smáraskóli bar sigur úr í býtum í flokki B, sem inniheldur skóla af miðstærð, og las jafnframt mest allra í keppninni eða 236.470 setningar. 914 einstaklingar tóku þátt fyrir hönd skólans.

Hörð keppni var í flokki C, flokki smærri skóla, en þar sigraði Höfðaskóli með 153.288 setningar lesnar af 353 keppendum.

Sandgerðisskóli las hlutfallslega flestar setningar

Jafnframt eru veitt þrenn aukaverðlaun fyrir framúrskarandi árangur með tilliti til fjölda setninga sem hver skóli las, þvert á flokka. Sandgerðisskóli náði framúrskarandi árangri en þar lásu 593 einstaklingar 208.535 setningar. Öxarfjarðarskóli og Gerðaskóli fá einnig verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Í Öxarfjarðarskóla lásu 285 keppendur 147.189 setningar og fyrir Gerðaskóla tóku 406 einstaklingar þátt og lásu 89.336 setningar.

Áfram er hægt að lesa inn í gagnagrunn Samróms á vef verkefnisins og leggja þannig sitt af mörkum fyrir framtíð íslenskunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.