Sport

Búrkína Fasó áfram í 8-liða úrslit eftir maraþon vítaspyrnukeppni

Atli Arason skrifar
Bertrand Traore og félagar í Búrkína Fasó eru komnir áfram í 8-liða úrslit
Bertrand Traore og félagar í Búrkína Fasó eru komnir áfram í 8-liða úrslit Twitter

Búrkína Fasó er fyrsta liðið til að fara áfram í 8-lið úrslit Afríkukeppninnar eftir að liðið sigraði Gabon í 9 umferða vítaspyrnukeppni í kvöld. 

Bertrand Traore, leikmaður Aston Villa og Búrkína Fasó, klikkar á vítaspyrnu á 18. mínútu leiksins en hann bætir upp fyrir klúðrið tíu mínútum síðar, þegar hann kemur Búrkína Fasó yfir og 1-0 var staðan í hálfleik.

Á 67. mínútu fær Sidney Obissa, leikmaður Gabon, sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Þrátt fyrir að hafa verið manni færri, þá jafnar Gabon metin í uppbótatíma leiksins þegar Adama Guira, leikmaður Búrkína Fasó, verður fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Því þurfti að framlengja leikinn en ekkert mark var skorað í framlengingunni og liðin urðu að útkljá sigurvegara í vítaspyrnukeppni.

Dramatíkin í þessum leik varð ekkert minni í vítaspyrnukeppninni sem fór í fjórar umferðir af bráðabana en bæði lið tóku alls níu vítaspyrnur. Fór svo að lokum að Ismael Ouedraogo skoraði sigurmarkið fyrir Búrkína Fasó úr 18. vítaspyrnunni. Búrkína Fasó mun leika gegn annaðhvort Nígeríu eða Túnis í 8-liða úrslitum þann 29. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×