Sport

Vísað úr flugi eftir að hafa neitað að bera grímur og reynt að reykja sígarettur

Sindri Sverrisson skrifar
Rússneski hópurinn skilaði sér að lokum heim til Moskvu, 2. janúar, eftir að hafa verið vísað úr flugvél Air Canada á gamlársdag.
Rússneski hópurinn skilaði sér að lokum heim til Moskvu, 2. janúar, eftir að hafa verið vísað úr flugvél Air Canada á gamlársdag. Getty/Gavriil Grigorov

Leikmönnum rússneska ungmennalandsliðsins í íshokkí var vísað úr flugvélinni þegar þeir hugðust halda heim á leið af HM, eftir drykkjulæti. Tékkum var einnig vísað úr vélinni en það var vegna misskilnings.

Heimsmeistaramót ungmenna í íshokkí hófst í Kanada á öðrum degi jóla en var svo blásið af 29. desember. Þá hafði nokkrum leikjum þegar verið frestað vegna kórónuveirusmita í nokkrum liðum, þar á meðal því rússneska, og á endanum var ákveðið að hætta við mótið og senda liðin heim.

Alþjóða íshokkísambandið hefur óskað eftir upplýsingum frá „þar til bærum yfirvöldum“ um hvað gekk á þegar landslið Rússlands og Tékklands hugðust fljúga frá Kanada til Frankfurt.

Aftonbladet segir að hegðun Rússanna hafi verið svo slæm að starfsfólk Air Canada hafi ekki séð sér annað fært en að vísa þeim úr flugvélinni. Þar með tók við nokkurra klukkutíma bið hjá öðrum farþegum áður en vélin fór á loft, en finna þurfti farangur Rússanna og losa hann úr vélinni.

Leikmennirnir munu hafa innbyrt óhóflegt magn áfengis, neitað að bera sóttvarnagrímur og reynt að reykja sígarettur eftir að þeir voru komnir inn í flugvélina.

Tékkneska landsliðinu var einnig vísað úr vélinni en síðar kom í ljós að það var í raun aðeins vegna framkomu Rússanna. Air Canada mun því hafa greitt fyrir hótelgistingu Tékka og útvegað þeim nýja flugmiða.

Rússar urðu í 4. sæti á HM ungmenna fyrir ári síðan og eru næstsigursælastir í sögu mótsins á eftir Kanadamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×