Erlent

Mældu ó­vart ferðir þorsks og skarfs með sömu merkingunni

Atli Ísleifsson skrifar
Smáum mæli sem mælir hitastig og dýpi var græddur í um 1.200 þorska yfir þriggja ára tímabil í Eystrasalti.
Smáum mæli sem mælir hitastig og dýpi var græddur í um 1.200 þorska yfir þriggja ára tímabil í Eystrasalti. Stjörnu-Oddi/EPA

Rafeindamælitæki frá íslenska hátæknifyrirtækinu Stjörnu-Odda, sem komið var fyrir í þorski í Eystrasalti til að mæla hegðun hans, mældi nýlega óvart einnig hegðun skarfs. Var því hegðun tveggja dýrategunda mæld með sama mælinum.

Stjörnu-Oddi segir frá því að skarfurinn hafi veitt þorsk sem hafi borið mælinn í sjónum, étið hann og skilaði skarfurinn svo mælinum gegnum meltingarveginn, í skarfabyggð á landi.

„Mikið magn þorks var merkt í Eystrasalti nýverið í tengslum við alþjóðlegt sjávarrannsóknaverkefni sem heitir TABACOD. Smár mælir frá Star-Odda (Stjörnu-Odda) sem mælir hitastig og dýpi var græddur í um 1.200 þorska yfir 3ja ára tímabil. Undir venjulegum kringumstæðum skila sjómenn hverjum mæli þegar fiskurinn er veiddur en í þetta skipti var það öðruvísi. Fuglafræðingur fann mælinn í skarfabyggð.

Augljóst þykir að skarfurinn hafði gleypt mælinn og skilað honum eftir náttúrulegri leið gegnum meltingarveginn. Mikill munur er á líkamshita þorsksins og skarfsins og var þá hægt að sjá hvenær mælirinn var í fisknum og hvenær mælirinn fór í gegnum meltingafæri skarfsins. Þorskurinn var búinn að vera með mælinn í sér í 90 daga áður en hann var étinn af skarfinum.

Nokkur áhugaverð gögn komu fram í mælingum á þorsknum og skarfinum. Þorskurinn var nálægt yfirborði um kl. 9 að morgni þegar hann var étinn. Eftir að fuglinn hafði étið þorskinn tók það skarfinn 31 klukkustund að melta mælinn. Það var mjör greinilegt þar sem mælirinn nam hitastig milli 39,3°C og 41,2°C í meltingafærum fuglsins,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×