Sport

Valin fimleikakona ársins á afmælisdaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fimleikafólk ársins 2021, Kolbrún Þöll Þorradóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson. Þetta er í fyrsta sinn sem þau hljóta þessa viðurkenningu.
Fimleikafólk ársins 2021, Kolbrún Þöll Þorradóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson. Þetta er í fyrsta sinn sem þau hljóta þessa viðurkenningu. stefán pálsson

Kolbrún Þöll Þorradóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson voru valin fimleikafólk ársins af Fimleikasambandi Íslands.

Kolbrún er nýkrýndur Evrópumeistari í hópfimleikum með kvennaliði Íslands. Hún framkvæmdi afar erfið stökk á EM sem lauk um helgina, meðal annars tvöfalt strekkt heljarstökk með þremur og hálfri skrúfu sem hún gerði á trampólíni. Hún er fyrsta konan sem keppir með það stökk á alþjóðlegu móti.

Kolbrún var einnig valin í úrvalslið EM í fjórða sinn í röð. Þá varð hún Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni. Þess má geta að Kolbrún fagnar 22 ára afmæli sínu í dag.

Helgi var einn af máttarstólpunum í karlaliði Íslands sem endaði í 2. sæti á EM í Guiamaeres í Portúgal. Hann framkvæmdi fyrstur manna framseríuna skrúfa-kraftstökk-tvöfalt strekkt heljarstökk með tveimur hálfri skrúfu á dýnu og braut þar með blað í fimleikasögunni.

Helgi var valinn í úrvalslið Evrópumótsins fyrir stökk sín á dýnu. Skagamaðurinn varð einnig Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni.

Ásta Kristinsdóttir var í 2. sæti í valinu á fimleikakonu ársins. Hún var valin í úrvalslið EM fyrir gólfæfingar sínar. Margrét Lea Kristinsdóttir varð í 3. sæti í valinu en hún vann til silfurverðlauna í gólfæfingum á Norður-Evróupmóti sem fram fór í Wales í nóvember.

Valgarð Reinhardsson var í 2. sæti í valinu á fimleikamanni ársins. Hann er fremsti fjölþrautarkappi Íslands og er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari í greininni. Hann keppti einnig á HM og EM. Einar Ingi Eyþórsson í karlaliðinu í hópfimleikum varð í 3. sætinu í valinu.

Kvennalið Íslands í hópfimleikum var valið lið ársins hjá Fimleikasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×