Fótbolti

Messi sagður efast um að Pochettino ráði við starfið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi er sagður efast um að Mauricio Pochettino sé starfi sínu vaxinn sem knattspyrnustjóri franska ofurliðsins Paris Saint-Germain.
Lionel Messi er sagður efast um að Mauricio Pochettino sé starfi sínu vaxinn sem knattspyrnustjóri franska ofurliðsins Paris Saint-Germain. Geert van Erven/BSR Agency/Getty Images

Lionel Messi, leikmaður Paris Saint-Germain og einn besti knattspyrnumaður sögunnar, er sagður efast um að landi sinn, Mauricio Pochettino, ráði við starfið sem knattspyrnustjóri félagsins.

Messi hefur greint frá áhyggjum sínum varðandi leikskipulag Pochettino og efast um hæfni hans til að hafa stjórn á stórstjörnum liðsins innan búningsherbergisins.

Þrátt fyrir að PSG sitji í efsta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar með ellefu stiga forskot, benda ýmsar fregnir til þess að Messi hafi áhyggjur af stöðu félagsins undir stjórn landa síns.

Væntingarnar sem gerðar voru til liðsins fyrir tímabilið voru, eins og gefur að skilja, gríðarlegar, enda hefur Parísarliðið safnað til sín stórstjörnum í nánast hverja einustu stöðu. 

Talið er að Messi þyki leikstíll Pochettino of hamlandi og að hann leiði til þess að stjörnuprýdd sóknarlína liðsins fái ekki að njóta sín til hins ýtrasta.

Messi hefur aðeins skorað eitt mark í frönsku deildinni síðan hann gekk til liðs við frönsku risana í sumar, en betur hefur gengið í Meistaradeildinni þar sem hann hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum.

Eins og áður segir er liðið í góðum málum í deildinni heima fyrir, en aðalmarkmið PSG er að vinna loksins Meistaradeildina. Liðið situr þar í öðru sæti A-riðils og hefur nú þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, en Pochettino veit líklega manna best að liðið þarf að gera alvöru atlögu að titlinum ætli hann sér að halda starfi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×