Íslenski boltinn

Sindri til reynslu hjá litla bróður

Sindri Sverrisson skrifar
Sindri Kristinn Ólafsson kastar sér á eftir boltanum í leik gegn Fylki í sumar.
Sindri Kristinn Ólafsson kastar sér á eftir boltanum í leik gegn Fylki í sumar. vísir/hulda margrét

Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson úr Keflavík verður næstu daga til reynslu hjá danska 1. deildarliðinu Esbjerg.

Sindri mun þar með æfa með bróður sínum, Ísaki Óla, og freista þess að heilla forráðamenn danska félagsins nægilega mikið til að fá samningstilboð. Félagið greinir sjálft frá því að hann sé til reynslu, á heimasíðu sinni.

Sindri, sem er 24 ára, á að baki 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann hefur varið mark Keflavíkur frá árinu 2015 og þegar leikið 57 deildarleiki í efstu deild og 65 leiki í næstefstu deild.

Ísak bróðir hans kom til Esbjerg frá SönderjyskE í júlí, eftir að hafa verið að láni hjá Keflavík fyrri hluta sumars. Þessi 21 árs gamli miðvörður, sem leikið hefur einn A-landsleik og 28 leiki fyrir yngri landsliðin, fór fyrst til SönderjyskE sumarið 2019.

Esbjerg hefur fengið á sig 28 mörk í 16 deildarleikjum. Liðið er í 8. sæti af tólf liðum næstefstu deildar með 16 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.