Innlent

Hægt að finna fyrir töfrunum á ævin­týra­legu skóla­bóka­safni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Dröfn er hug­mynda­smiðurinn og reyndar einnig smiðurinn sjálfur. Það eru krakkarnir í Selja­skóla fá að njóta góðs af hennar frjóa hug­mynda­flugi.
Dröfn er hug­mynda­smiðurinn og reyndar einnig smiðurinn sjálfur. Það eru krakkarnir í Selja­skóla fá að njóta góðs af hennar frjóa hug­mynda­flugi. vísir

Krakkar í Seljaskóla eru himinlifandi með bókasafnsfræðinginn sinn sem leggur allt í skreytingar fyrir hátíðirnar. Jólabókahornið kemur krökkunum í jólaskap og eykur lestraráhuga í leiðinni.

Eruði mikil jóla­börn?

Jú, það halda nú þær vin­konurnar Brynja, Kristín og Sig­rún, úr Selja­skóla. En vin­kona þeirra Rut getur ekki tekið undir það: „Ég myndi ekki segja það.“

En kemstu í jóla­skap þegar það er orðið svona jóla­legt í skólanum?

„Já.“

Þær Brynja, Kristín, Rut og Sigrún eru komnar í jólaskap.stöð 2

Og það skal engan undra því í Selja­skóla má með sanni segja að jóla­andinn sé kominn á kreik, nú þegar 31 dagur er til jóla.

Leitast við að bæta við töfrana

Því til sönnunar er jóla­bóka­hornið sem búið er að setja upp á skóla­bóka­safninu. Frétta­stofa leit þar við í dag og spjallaði við krakkana og þann sem ber á­byrgð á þessu metnaðar­fulla verk­efni, bóka­safns­fræðinginn Dröfn Vil­hjálms­dóttur.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvernig er umhorfs í Seljaskóla:

„Sko, mér finnst skóla­bóka­safnið vera svona töfrandi staður og ég er alltaf að leitast við að bæta við töfrana og mig langar eigin­lega að þegar börnin koma inn á skóla­bóka­safnið þá séu þau eigin­lega að koma bara inn í ævin­týra­lega bók strax,“ segir Dröfn.

Ert þú sjálf jóla­barn?

„Ég er dá­lítið jóla­barn sjálf. Það hlýtur eigin­lega að vera,“ segir hún og bendir í kring um sig á vel skreytt jóla­bóka­hornið. „Þannig ég er farin að hlakka til jólanna.“

Dröfn Vilhjálmsdóttir bókasafnsfræðingur reynir að gera safnið að ævintýralegum og spennandi stað fyrir krakkana.stöð 2

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dröfn tekur sig til og skreytir safnið fyrir krakkana.

Þannig má eigin­lega segja að Dröfn hafi toppað sig fyrir hrekkja­vökuna þar sem öllu var tjaldað til, meira að segja reyk­vél.

Frá því á hrekkjavökunni. Dröfn lætur börnin draga bókaflokka til að velja sér bók úr - ef þeir þora.skólabókasafn Seljaskóla

Ímyndunarafl Drafnar ýtir undir lestraráhuga barna

Það leynir sér alla­vega ekki að krakkarnir eru hrifnir af Dröfn og hennar stór­kost­legu skreytingum.

Haldiði að þið lesið meira fyrir vikið? spyrjum við annan vin­kvenna­hóp á safninu, þær Rann­veigu, Kristínu, Stellu Björk og Aþenu.

„Já, sér­stak­lega jóla­bækur,” segja þær.

Vinkonurnar Rannveig, Kristín, Stella Björk og Aþena.stöð 2

„Mér finnst bara mjög gaman hvernig Dröfn er svona með í­myndunar­afl og gerir alltaf svona á jóla og hrekkja­vökunni. Þá skreytir hún mjög mikið og það er bara mjög gaman. Þá fær maður svona meiri á­huga á bókum,” segir Stella Björk.

Og á meðan krakkarnir bíða spenntir eftir jólunum og telja niður dagana geta þeir drepið tímann með góðum jóla­bóka­lestri í snjó­húsinu í jóla­bóka­horninu í Selja­skóla.

Snjóhús úr eggjabökkum og huggulegur arinn við hliðina. Það er ekki leiðinlegt að lesa í þessu umhverfi.skólabókasafn seljaskóla


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.